Nafnið (1970-76)

Nafnið 1975

Nafnið 1975

Hljómsveitin Nafnið starfaði í Borgarnesi um árabil, gerði út á sveitaböllin og var einkum sterk á heimaslóðum.

Nafnið var stofnuð í upphafi árs 1970 og var í byrjun fjögurra manna sveit, Vignir Helgi Sigurþórsson söngvari og gítarleikari, Kristján Helgason bassaleikari og Sveinn Ágúst Guðmundsson trommuleikari voru þrír meðlima hennar en nafn þess fjórða er ekki kunnugt, sá hætti 1970 og var sveitin um tíma tríó.

Einhverjar frekari mannabreytingar urðu á Nafninu á næstu árum en litlar upplýsingar finnast um þær, 1972 var sveitin aftur fjögurra manna og tveimur árum síðar voru þeir Vignir og Sveinn enn meðal meðlima en auk þeirra voru í henni Andrés Helgason bassaleikari og Birgir Guðmundsson gítarleikari.

Þá var Nafnið um tíma með japanskan bassaleikara, Nobby Joshu, 1974 og 75, og ári síðar tók Gunnar Ringsted við gítarnum af Birgi en Gunnar lék einnig á hljómborð, auk þess kom Andrés Ólafsson inn í stað Nobbys Joshu, þá var Sveinn trymbill eini meðlimur Nafnsins sem verið hafði frá upphafi.

Nafnið virðist hafa hætt störfum 1976, hún gæti þó hafa starfað lengur og nokkuð öruggt er að fleiri komu við sögu hennar en hér er upptalið.