Stjörnukisi (1996-2003)

Stjörnukisi – sigurvegarar Músíktilrauna 1996

Hljómsveitin Stjörnukisi kom fyrst fram undir því nafni í Músíktilraunum Tónabæjar vorið 1996 en sveitin var þá langt frá því að vera nýstofnuð því hún hafði verið starfandi undir nöfnunum Drome og Silverdrome áður og komið margoft fram á tónleikum frá árinu 1994.

Í Músíktilraunum voru meðlimir Stjörnukisa þeir Úlfur Chaka Karlsson söngvari (og textaskáld sveitarinnar), Bogi Reynisson bassaleikari, Gunnar Óskarsson gítarleikari, Sölvi H. Blöndal trommuleikari og Viggó Karl Jóhannsson hljómborðsleikari en einnig höfðu þeir um tíma haft með sér plötusnúð, Dj Richard (Richard Oddur Hauksson) sem um þetta leyti var orðinn fastur liðsmaður sveitarinnar, Úlfur, Bogi og Gunnar höfðu stofnað sveitina.

Stjörnukisi fór áfram í úrslit Músíktilraunanna á úrskurði dómnefndarinnar því áhorfendur höfðu ekki kosið sveitina áfram, það fór svo þannig að sveitin sigraði Músiktilraunirnar en Á túr og Gutl hrepptu annað og þriðja sætið. Aukinheldur voru þeir Sölvi og Gunnar kjörnir bestu trommu- og gítarleikarar tilraunanna það árið. Tónlist sveitarinnar var drungalegt rokk með techno-ívafi, textarnir voru á íslensku en höfðu áður verið á ensku og hafði hún þá hljóðritað nokkur lög sem þeir áttu síðar eftir að endurvinna á íslensku.

Stjörnukisi 1996

Í kjölfar sigursins í Músíktilraunum lék sveitin nokkuð í félagsmiðstöðvum borgarinnar um vorið og um sumarið og haustið 1996 tók við almennari spilamennska, m.a. á Óháðu listahátíðinni og í framhaldsskólunum – þá hitaði sveitin upp ásamt fleirum fyrir kanadísku rokksveitina Normenasno.

Um haustið kom fyrsta afurð Stjörnukisa út, það var tíu tommu (45 snúninga) vínylplatan Veðurstofan en á henni var að finna þrjú lög (Glórulaus / Blár skjár / Mæja býfluga) frá Silverdrome tímabilinu, sem höfðu fengið andlitslyftingu og voru nú á íslensku. Vínyllinn var hvítur og upplagið er ýmist sagt hafa verið þrjú hundruð eintök eða hundrað og fimmtíu – tölusett.

Síðla árs urðu fyrstu breytingar á skipan Stjörnukisa en mannabreytingar áttu eftir að setja svip á sveitina og ekki síður tónlist hennar því þegar Richard plötusnúður og Sölvi trommuleikari hættu (sá síðarnefndi til að sinna verkefni sem síðar varð að Quarashi) varð tónlistin keyrð áfram af trommuheila í stað lifandi trommara sem breytti henni töluvert, Viggó hljómborðsleikari hætti síðan líka þannig að um vorið 1997 var sveitin orðin að tríói þeirra Úlfs, Boga og Gunnars.

Tríóið Stjörnukisi

Sveitin hélt áfram að koma fram á tónleikum og m.a. í Norðurkjallara MH þar sem nokkrar ungsveitir spiluðu síðla vetrar, þeir tónleikar voru svo gefnir út um vorið (1997) undir titlinum Tún (Tónleikaupptökur úr Norðurkjallara) og þar áttu þeir Stjörnukisar lagið Leifturljós. Svo virðist sem Birkir Fjalar Viðarsson hafi leikið með sveitinni á þeim tónleikum en hann átti síðar eftir að ganga til liðs við hana. Og fleiri lög komu út á safnplötum það sama ár, lagið Cairo var í kvikmyndinni Blossi 810551 og kom út á plötu tengt því og um haustið átti Stjörnukisi tvö lög á safnplötunni Spírur en þau lög áttu ekki eftir að koma út á plötum sveitarinnar. En það dró einnig til tíðinda í útgáfumálum sveitarinnar því um sumarið (1997) kom út sex laga plata með henni undir titlinum Geislaveisla, þar var um að ræða geisladiskur sem gefinn var út af eigin útgáfufyrirtæki sveitarinnar, Orange electric cloud en Smekkleysa hafði upphaflega ætlað að gefa plötuna út, hún fékk góða dóma í DV og Morgunblaðinu. Stjörnukisi sem þá var tríó sem fyrr segir, var töluvert virk um þetta leyti og á næstu mánuðum og fór sveitin m.a.s. út til Sviss til tónleikahalds um haustið.

Á vormánuðum 1998 fór töluvert aftur fyrir sveitinni eftir smá pásu og þá tóku þeir félagar þátt í kvikmyndaverkefninu Popp í Reykjavík og birtust í þeirri mynd en hún var frumsýnd um haustið og þá kom einnig út plata þar sem sveitin var meðal flytjenda, sveitin átti um það leyti einnig lag á plötunni Fire and ice: Music from Iceland. Birkir Fjalar trommuleikari hafði þarna gengið til liðs við sveitina og enn breyttist tónlist hennar við það enda kom hann úr mun þyngra rokkumhverfi, hafði spilað m.a. með Bisund. Úlfur söngvari veiktist um þetta leyti og kom í ljós að hann var með hvítblæði en sveitin lá niðri af þeim sökum um tíma um veturinn, þau veikindi áttu síðar eftir að leggja hann að velli.

Stjörnukisi

Um vorið 1999 birtist Stjörnukisi aftur eftir nokkurra mánaða hlé, kom þá fram í sjónvarpsþættinum Kolkrabbanum en spilaði fremur lítið um sumarið, spilaði þó á Stefnumótakvöldi á Gauknum og fáeinum öðrum tónleikum. Hins vegar kom geislasmáskífa út með sveitinni um sumarið, um var að ræða lögin Flottur sófi / Lesbíubælið en fyrrnefnda lagið var þar auk original útgáfunnar að finna í fjórum endurhljóðblönduðum útgáfum. Skífan sem var gefin út af sveitinni sjálfri var ekki seld í verslunum heldur gefin en fimm hundruð eintök voru gerð af henni, hún fékk þokkalega dóma í Fókusi og Morgunblaðinu. Þeir félagar sögðust um það leyti vera að vinna að breiðskífu sem væri væntanleg þá og þegar en sú skífa lét bíða eftir sér.

Stjörnukisi lék lítið um veturinn 1999-2000 en var töluvert virkari þegar voraði á nýjan leik, sveitin var eins og flestar íslenskar hljómsveitir á tónlistahátíðinni Reykjavik Music Festival um vorið 2000, kom fram á Lágmenningarhátíð um sumarið, og Unglist og Iceland Airwaves um haustið en hún átti þá efni á safnplötu sem gefin var út af því tilefni – Iceland Airwaves: 19. – 22. October Reykjavik Iceland. Þá átti Stjörnukisi einnig lag (Viltu deyja?) í kvikmyndinni Óskabörn þjóðarinnar, og á plötu sem kom út í kjölfarið með tónlist úr myndinni.

Stjörnukisi

Veturinn 2000 til 2001 var Stjörnukisi töluvert meira í sviðsljósinu heldur en lengi á undan, þá var enn talað um að plata væri væntanlega en hún lét enn bíða eftir sér. Sveitin spilaði á vægast sagt umdeildum tónleikum í litla sal Borgarleikhússins um haustið 2001 en á þeim léku auk Stjörnukisa Thayer Thayer Thorsteinsson og Úlpa, þar var myndbandi með grófu dýraklámi varpað á vegg ofan við hljómsveitirnar og urðu margir til að fordæma uppátækið – blaðamaður Morgunblaðsins gekk t.a.m. úr salnum. Reyndar kom í ljós að hljómsveitirnar þrjár hefðu hvergi nærri komið nálægt gjörningnum heldur var þar um að ræða utanaðkomandi listamann. Sveitin spilaði eins og árið á undan á Iceland Airwaves og nokkrum öðrum tónleikum og reyndar var sveitin dugleg að koma fram á tónleikum þar sem ýmsum málefnum voru lögð lið, t.d. Frjálsri Palestínu, RAWA, Alnæmissamtökunum o.fl. Á þessum tónleikum var Stjörnukisi að kynna nokkuð af nýju efni en einnig nýjan liðsmann því Ari Þorgeir Steinarsson gekk til liðs við sveitina um haustið og tók við trommuleiknum af Birki Fjalari.

Um þetta leyti voru liðsmenn Stjörnukisa að setja upp eigið hljóðver sem hlaut nafnið Veðurstofan og þegar það var tilbúið til notkunar við árslok 2001 var loks hafist handa við að hljóðrita breiðskífuna sem hafði þá verið væntanleg um langan tíma, svissneskur upptökumaður vann plötuna með þeim og m.a. fóru þeir félagar til Sviss og spiluðu þar reyndar einnig á nokkrum tónleikum. Fyrir vikið fór lítið fyrir sveitinni hér heima framan af árinu 2002 en um sumarið birtist hún aftur og þá með  breiðskífuna tilbúna og einnig nýjan liðsmann, Gísla Þór Sigurjónsson gítar- og hljómborðsleikara.

Stjörnukisi

Platan fékk nafnið Góðar stundir og var eins og fyrri útgáfur gefin út af sveitinni sjálfri, hún var tíu laga og var allt efnið á henni nýtt – hafði verið samið og unnið veturinn á undan. Þeir félagar sáu reyndar nánast um allt sjálfir varðandi útgáfuna og t.d. hannaði Úlfur umslag plötunnar. Platan hlaut þó varla nema þokkalega dóma í Morgunblaðinu. Stjörnukisi fylgdi Góðum stundum töluvert eftir með spilamennsku um sumarið og haustið, og spilaði þá m.a. á Airwaves enn og aftur. Sveitin varð hins vegar ekki langlíf eftir það, starfaði eitthvað fram yfir áramótin 2002-03 en hætti síðan störfum snemma árs 2003.

Stjörnukisi var þrátt fyrir sigurinn í Músíktilraunum aldrei jafn stórt nafn og sveitir eins og Botnleðja, Kolrassa krókríðandi eða Maus sem höfðu verið meðal sigurvegara árin á undan en sveitin skildi samt sem áður eftir sig fjórar skífur sem er meira en flestar sveitir gera, og einnig komu fjölmörg lög út með sveitinni á safn- og kvikmyndaplötum. E.t.v. mætti kenna um tíðum mannabreytingum með tilheyrandi breytingum á tónlistinni en einnig komu veikindi Úlfs þar við sögu, hann lést haustið 2007.

Efni á plötum