Árblik (1975-78)

Árblik1977

Árblik 1977

Saga hljómsveitarinnar Árblik markar hvorki tímamót né sporgöngu í sögu íslenskrar tónlistar en sveitin má eiga það að hún spilaði nokkuð af frumsömdu efni á sveitaballaferli sínum og ól af sér nokkra af þeim sem síðar voru kenndir við Rikshaw og skutu víðar upp kollinum á sínum tónlistarferli.

Árblik var stofnuð í Hafnarfirði 1975 af ungum piltum á menntaskólaaldri og urðu einhverjar mannabreytingar í henni framan af, t.a.m. voru þeir söngvaralausir þar til Reynir Sigurðsson söngvari kom til sögunnar, þeir höfðu aukinheldur skipt um trommuleikara (Magnús Traustason gæti hafa verið fyrsti trommari sveitarinnar) og haustið 1976 hætti hljómborðsleikari sem leikið hafði með sveitinni. Ekki liggur fyrir nafnið á honum en aðrir sem skipuðu sveitina þá voru Jón Kristinn Guðjónsson bassaleikari, Þórir Sigurðsson hljómborðsleikari (sem kom í stað þess sem hætti) og Sigurður Gröndal gítarleikari og Sigurður Hannesson trommuleikari sem síðar áttu eftir að láta að sér kveða í nýrómantíkursveitinni Rikshaw, sem og Ingólfur Guðjónsson hljómborðsleikari sem bættist síðar í hópinn, tók við af áðurnefndum Þóri.

Sveitin þótti lífleg á sviði, lék eigið efni og kom fram máluð sviði en það þótti einkennilegt og varð sjálfsagt til þess að hún var í blöðum nefnd furðuhljómsveit, hún var einnig kennd við ræflarokk eða pönk og reyndar gáfu þeir sjálfir í skyn í tímaritsviðtali að þeir væru samkynhneigðir. Ýmsir urðu til að taka þau orð á lofti en meðlimir sveitarinnar voru fljótir að draga það til baka.

Árblik starfaði til 1978 en síðustu mánuðina fór lítið fyrir henni, tveir meðlima hennar fóru til Danmerkur um sumarið 1978 og stóð til að endurvekja hana um haustið en úr því varð aldrei, sveitin tók aldrei upp neitt af því frumsamda efni sem hún lá á en kom reyndar fram í sjónvarpsþættinum Rokkveitu ríkisins vorið 1977.

Haustið 1981 kom hljómsveit með þessu nafni fram á skemmtun á Seltjarnarnesi en ekki liggur fyrir hvort um eins konar endurkomu þessarar sveitar eða um aðra sveit var að ræða.

Eins og áður segir birtust flestir Árbliksmanna í Rikshaw nokkrum árum síðar, eldri og reyndari og áttu þá einnig eftir að birtast síðar í sveitum eins og Loðinni rottu og Pláhnetunni svo einhverjar séu nefndar.