
Beatniks 1965
Reykvíska hljómsveitin Beatniks (hin síðari) var ein af hinum svokölluðu bítlasveitum en hún var og hét á árunum 1965-66.
Beatniks var skipuð nokkrum þekktum einstaklingum eins og Einari Vilberg sem átti eftir að starfa nokkuð við tónlist á næstu árum, Árna Þórarinssyni trommuleikara (síðar blaðamaður og rithöfundur svo fátt eitt sé nefnt) og Ingimundi Sigurpálssyni gítarleikara (síðar bæjarstjóri í Garðabæ og forstjóri Eimskips), aðrir meðlimir Beatniks voru Hörður Árnason og Sveinbjörn Dýrmundsson. Þeir voru allir um fimmtán og sextán ára.
Sveitin spilaði nokkuð á þessu tveggja ára tímabili en mynd af henni sem birtist í blöðunum vakti nokkrar deilur, þar pósuðu meðlimir hennar við legsteina í kirkjugarði og þótti ýmsum það óviðeigandi svo ekki sé sterkara að orði komist.














































