Einar Hjaltested (1893-1961)

Einar Hjaltested

Ferill Einars Hjaltested tenórsöngvara er sorglegt dæmi um hvernig áfengi getur grafið undan lífi manna en drykkja og óregla lagði söngferil hans í rúst.
Einar Pétursson Hjaltested frá Sunnuhvoli í Reykjavík (f. 1893) fór ungur og aleinn vestur til Ameríku og síðar Danmerkur til að nema söng, litlar sögur fóru af námsferli hans vestra en sjálfur bar hann sig vel þegar hann kom hingað í leyfum.

Upphaflega var Einar baritónsöngvari en með tímanum breyttist röddin og varð hann tenór. Hugur Einars, sem vestra kallaði sig listamannsnafninu Havodin, stefndi alltaf til Ítalíu en af þeim áformum varð aldrei og starfaði hann mest í Íslendingabyggðum Ameríku. Í viðtölum í blöðum hér heima kom fram að hann hefði sungið með ýmsum frægum söngvurum í stórum tónleikahöllum New York borgar, sagan segir til að mynda að hann hafi reynt að komast að í söngnám hjá Enrico Caruso en ekki tekist, Caruso hafi hins vegar komið því til leiðar að Einar söng fjögur lög inn á tvær 78 snúninga plötur hjá Columbia útgáfufyrirtækinu, sem komu út að öllum líkindum 1918 (þó aðrar heimildir segi reyndar 1916). Þær plötur voru einkum seldar í Íslendingabyggðum Winnipeg en bárust hingað lítið, af þeim sökum er um afar sjaldséðar plötur að ræða.

Einar kom stundum heim til föðurlandsins sem fyrr segir og hélt hér gjarnan tónleika, fyrst 1914. Hann söng til dæmis í samsæti sem haldið var Einari Benediktssyni skáldi og athafnamanni til heiðurs á fimmtugsafmæli hans. Einar hlaut misjafna gagnrýni fyrir frammistöðu sína á tónleikum hér heima, oft ágæta en einnig afar neikvæða eins og þá sem Sigfús Einarsson tónskáld ritaði eitt sinn í Morgunblaðið. Einar sá sig tilneyddan að svara honum fullum hálsi í blaðagrein.

Eitthvað varð söngferill Einars endaslepptur í Ameríku, hann fékkst eitthvað við söngkennslu áður en hann kom heim til Íslands 1928, hann söng aðeins einu sinni opinberlega eftir að heim var komið en þá réði hann orðið illa við áfengisneyslu og varð reyndar einhvers konar útigangsmaður. Sigfús Halldórsson segir frá í bókinni Sigfús Halldórsson opnar hug sinn (Jóhannes Helgi, 1980) hvernig komið var fyrir Einari en einnig mun hann óbeint hafa orðið valdur að dauðaslysi undir drykkjuáhrifum sem ekki varð til að hjálpa honum. Alltént höndlaði hann illa lífið eftir að heim var komið.

Einar lést 1961, á sjötugsaldri.

Árið 2009 kom út fimm laga plata í takmörkuðu upplagi gefin út af Sigurjóni Samúelssyni plötusafnara á Smyrlabjörgum, sem hafði að geyma lögin fjögur yfirfærð á stafrænt form af 78 snúninga plötunum auk lagsins Den sidste smerte sem er sungið af Guðmundi Jónssyni (upptaka frá 1980) en lagið var eftir Einar.

Efni á plötum