Else Mühl (um 1930-70)

Else Mühl

Else Mühl

Sópransöngkonan Else Mühl var ekki íslenskur tónlistarmaður en hún tók þátt í fyrstu alvöru óperuuppfærslunni hér á landi þegar Þjóðleikhúsið setti Rigoletto á fjalirnar vorið 1951 undir stjórn Victor Urbancic, hún var þá um tvítugt (engar upplýsingar finnast um fæðingarár hennar). Else var eini söngvarinn í uppfærslunni sem ekki var íslenskur en hún söng sig inn í hjörtu Íslendinga með frammistöðu sinni í óperunni, auk þess sem hún hélt tónleika víða um land þetta sumar og söng m.a. íslensk lög. Hún var austurrísk, hafði lært á fiðlu og þótti afar snjall fiðluleikari áður en hún lagði fyrir sig söngnámið og –ferilinn.

Else kom tvisvar aftur hingað til lands til tónleikahalds (1952 og 1959). Það má því hiklaust telja hana til Íslandsvina ekki síst eftir að hún söng íslensk lög við undirleik Gerald Moor inn á plötur í London 1953, sem komu hér út á vegum Fálkans. Kristinn Hallsson sem þá var í söngnámi í Englandi var henni til aðstoðar um íslenska framburðinn. Einnig komu út hjá Fálkanum um sama leyti plötur þar sem hún söng aríur úr Töfraflautunni og Rakaranum í Sevilla.

Else Mühl lést 1970 eftir nokkur veikindi.

Lítið hefur varðveist af söng Else Mühl á plötum hérlendis til þessa dags enda voru þær allar 78 snúninga, Ríkisútvarpið hafði hins vegar tekið upp óperuna Rigoletto í Þjóðleikhúsinu 1951 og komu hluti þeirra upptaka út í fjögurra platna safnpakka með Stefáni Íslandi sem hafði sungið aðalhlutverkið með Else, þar má heyra söng hennar einnig.

Efni á plötum