Facon (1962-69)

Facon

Facon

Hljómsveitin Facon frá Bíldudal (einnig stundum nefnd Facon sextett) er þekktust fyrir lag sitt Ég er frjáls en sveitin starfaði um sjö ára tímabil á sjöunda áratug 20. aldar.

Facon var stofnuð 1962 af Hirti Guðbjartssyni saxófónleikara en aðrir meðlimir stofnmeðlimir sveitarinnar voru þeir Jón Kr. Ólafsson söngvari, Ástvaldur Jónsson harmonikku- og gítarleikari og Jón G. Ingimarsson trommuleikari. Líklega bættist Sverrir Einarsson fljótlega í hópinn.

Facon spilaði mikið á Vestfjörðum alla tíð, einkum á upphafsárum sveitarinnar og lagði áherslu á danstónlist þess tíma. Tónlist sveitarinnar breyttist síðan í takt við tíðarandann og þegar Bítlatónlistin tók völdin hætti Jón Kr. söngvari um tíma (sumarið 1965) og tók Matthías Garðarsson við sönghlutverkinu en hann hafði nokkru áður komið inn í sveitina í stað Hjartar sem hætti. Jón Kr. var þó kominn inn í sveitina fyrir áramótin aftur. Pétur Bjarnason bassaleikari bættist í hóp sveitarmeðlima og einnig Bragi Jónsson en Sverrir var þá hættur. Grétar Ingimarsson hafði ennfremur tekið við trommunum af bróður sínum Jóni G.

1969 gaf sveitin út sína fyrstu og einu plötu, um var að ræða fjögurra laga plötu sem SG-hljómplötur gaf út en á henni var m.a. að finna fyrrgreint lag, Ég er frjáls, sem hefur verið aðalsmerki sveitarinnar og Jóns Kr. í gegnum tíðina. Þar er einnig að finna lagið Vísitölufjölskyldan sem er Pink Floyd lag (samið af Sid Barrett) við íslenskan texta. Pétur Östlund spilaði inn trommur í fjarveru trymbils sveitarinnar sem var á sjó. Hin lögin tvö, Ljúfþýtt lag og Unaðsbjarta æska fóru ekki hátt en komu út á sólóplötum Jóns Kr. löngu síðar.

Plata Facons hlaut í raun ekkert sérstakar viðtökur, hún var gefin út í um 800 eintökum og fékk varla nema sæmilega dóma í Morgunblaðinu en skárri í Tímanum. Sveitin hætti um það leyti er platan kom út.

Ég er frjáls hefur þó á síðari árum orðið sígilt og jafnvel notað sem hálfgert einkennislag í tengslum við Gay-pride hátíð samkynhneigðra, sem haldin er árlega hérlendis. Það hefur komið út á fjölmörgum safnplötum á seinni árum og hefur haldið merki Jóns Kr. söngvara á lofti.

Facon lifði ekki lengi eftir að platan kom út, eftir stendur lagið Ég er frjáls sem minnisvarði um sveitina, aukinheldur sem sveitin vann það afrek að verða fyrsta vestfirska hljómsveitin til að gefa út plötu.

Efni á plötum