Flames of hell (1984-87)

engin mynd tiltækSaga hljómsveitarinnar Flames of hell er sveipuð dulúð og fáir virðast vita nokkuð um tilurð hennar eða sögu hérlendis. Hún ku hafa verið ein sú fyrsta eða e.t.v. allra fyrsta íslenska sveitin sem spilaði eins konar rokk kenndan við djöfulinn.

Upphaf hennar má rekja aftur til ársins 1984 en þremur árum síðar kom út sjö laga breiðskífa sem bar heitið Fire and steel.

Þá var sveitin skipuð tveimur bræðrum, hálfungverskum að sögn, Sigurði bassaleikara og Steinþóri söngvara og gítarleikara sem báru ættarnafnið Nicolai, þeim til fulltingis var trommuleikarinn Jóhann Richardsson (Jói Motorhead) sem hafði gert garðinn frægan með Egó nokkrum árum fyrr. Þríeykið hafði líklega myndað sveitina frá upphafi.

Platan var tekin upp í hljóðverinu Gný sem þá hafði leiguaðstöðu í kjallara KFUM og K við Holtaveg, og var tónlistin e.t.v. ekki alveg í anda hinna kristilegu gilda eigenda hússins, sem sáu enga aðra leið en að segja Eyþóri Arnalds og félögum sem ráku hljóðverið, upp húsnæðinu þegar þeir komu að sveitinni í upptökum. Ekki hafði bætt úr skák að hinn frumlegi Sverrir Stormsker sem þarna hafði verið við upptökur, hafði nýtt predikunarstól sr. Friðriks Friðrikssonar, sem geymdur var þarna í húsnæðinu, til myndatöku fyrir plötuumslag, og einhvern veginn hafði það einnig borist til eyrna þeirra KFUM og K manna.

Kristinn Nicolai, þriðji bróðirinn hannaði umslag plötunnar sem aldrei var seld hérlendis en sjóræningjaeintök af plötunni á kassettu- og geisladiskaformi hafa gengið kaupum og sölum á netinu.

Ekki er vitað hvenær Flames of hell hætti störfum en það mun hafa verið fyrir óreglu trommuleikarans.

Efni á plötum