Glott (1989-96)

Glott

Glott

Hljómsveitirnar Glott (Glottt) og Fræbbblarnir eru iðulega nefndar í sömu andránni enda tæknilega séð um sömu sveit að ræða lengst af.

Fræbbblarnir sem upphaflega voru úr Kópavoginum höfðu hætt störfum 1983 en þegar ný sveit var stofnuð 1989 af Valgarði Guðjónssyni söngvara, Stefáni Guðjónssyni trommuleikara og Kristni Steingrímssyni gítarleikara sem allir höfðu verið í Fræbbblunum, auk Ellerts Ellertssonar bassaleikara og Karli Guðbjörnssyni hljómborðsleikara kom aldrei til greina að nefna bandið Fræbbblana af virðingu við Steinþór Stefánsson fyrrverandi bassaleikara sveitarinnar en hann hafði látist ári fyrr.

Glott, sem skilgreindi tónlist sína sem Shadowspunk, starfaði ekki samfleytt heldur með hléum og í einni törninni (sumarið 1991) sendi sveitin frá sér fjögurra laga snældu í samstarfi við knattspyrnufélagið Breiðablik, á plötunni léku þeir undir söng þeirra Ríó tríó manna, Ólafs Þórðarsonar og Helga Péturssonar, auk þess sem liðsmenn Breiðabliks, makar þeirra og þjálfarar tóku undir. Einhvern tímann hefði það þótt kómískt að sjá og heyra þetta samkrull Fræbbbla og Ríó tríós.

Þetta sama ár 1991, var í fyrsta skipti sem Gloss kom opinberlega fram og það áttu þeir eftir að gera reglulega í spilatörnum sínum næstu árin.
Einhverjar mannabreytingar urðu í sveitinni, Arnór Snorraason gítarleikari og fyrrum Fræbbbill bættist í hópinn 1994, þá var Karl hljómborðsleikari fyrir nokkru hættur og enn bættust Fræbbblar í bandið þegar Tryggvi Þór Tryggvason gítarleikari kom inn haustið 1995. Þar með var Glott svo gott sem orðin að Fræbbblunum enda Ellert bassaleikari sá einni sem ekki var í upphaflegu sveitinni, því þótti eðlilegt að bæði nöfnin kæmu fram í auglýsingum tengdum uppákomum sveitarinnar og smám saman vék Glott-prógrammið sem lengi samanstóð af frumsömdu efni í bland við cover, fyrir gömlu Fræbbblaefni. Að lokum gerðist það óhjákvæmilega að Fræbbblanafnið tók alveg yfir þegar safnplata með þeirri sveit kom út sumarið 1996 og Glott nafnið vék fyrir því. Í kjölfarið bættust þrjá kvensöngkonur við sveitina og er saga Glotts þar með öll.

Efni á plötum