Grettisgat [hljóðver] (1981-86)

engin mynd tiltækHljóðverið Grettisgat starfaði á árunum 1981-86 og var í eigu meðlima Þursaflokksins og Júlíusar Agnarssonar. Hljóðverið var alla tíð staðsett í bakhúsi við heimili Egils Ólafssonar að Grettisgötu 8 en þar voru margar plötur teknar upp.

Í upphafi var farið af stað með átta rása upptökutæki sem mörgum þótti lítið en þá voru tónlistarmenn farnir að gera kröfur um tuttugu og fjögurra rása upptökutæki. Upptökur úr Grettisgati þóttu standast betri tækjum snúning en að tveimur árum liðnum hafði hljóðverið þó endurnýjað tækjakost sinn með tuttugu og fjórum rásum.

Margir þekktir tónlistarmenn og hljómsveitir tóku upp efni í Grettisgati og má þar nefna sjálfa Þursana, Stuðmenn, Bubba Morthens, Baraflokkinn o.fl.
Grettisgat starfaði undir því nafni til 1986 en þá var nafni þess breytt í Sýrland, um það hljóðver má lesa annars staðar.