Hljómsveitin Reflex starfaði um tveggja ára skeið, á árunum 1982-83 og vakti þá nokkra athygli.
Stofnmeðlimir Reflex voru þeir Guðmundur Sigmarsson gítarleikari og Ólafur Friðrik Ægisson bassaleikari en fljótlega bættist Heimir Már Pétursson söngvari (síðar fjölmiðlamaður) í hópinn og að lokum kom trommuleikarinn Baldvin Örn Arnarson til leiks.
Þannig skipuð tók Reflex þátt í fyrstu Músíktilraunum Tónabæjar og SATT haustið 1982 og komst þar í úrslit, þar má segja að hápunkti sveitarinnar hafi verið náð en reyndar spilaði sveitin einnig á Melarokkshátíðinni nokkrum vikum fyrr um haustið. Þá lék Reflex jafnframt á tónleikum á Klambratúni gegn kjarnorkuvígbúnaði, á Hótel Borg, á tröppum Menntaskólans í Reykjavík og víða í félagsmiðstöðvum, þar til hún lagði upp laupana um haustið 1983.

Reflex lék framsækið rokk undir nokkrum áhrifum frá evrópsku þungarokki og pönki, og gerði demó-upptökur af 8-10 lögum sem þó voru aldrei gefin út með sveitinni en löngu síðar (2011) voru tvö þeirra endurútsett og gefin út undir merkjum Hnotubrjótanna en Heimir var einn meðlimur þeirrar sveitar.














































