
Selma Björns syngur All out of luck
Eins og annars staðar segir tók Ísland ekki þátt í keppninni 1998 en snemma árs 1999 var tilkynnt að Selma Björnsdóttir myndi syngja framlag okkar að þessu sinni í samstarfi við Þorvald Bjarna Þorvaldsson en hún hafði m.a. unnið með honum tónlistina í kvikmyndinni Sporlaust. Selma hafði einnig nýverið sungið nokkuð í söngleikjum og vakið athygli með danssveitinni Fantasíu.
Ákveðið var nú að syngja framlag Íslendinga á ensku í fyrsta skipti og skiptust menn í tvær fylkingar hvað þetta varðaði. Fleiri voru þó á því að það væri til bóta því möguleikarnir á sigri í keppninni hlytu að verða meiri ef sungið væri á tungumáli sem fólk skildi. Þorvaldur Bjarni samdi lagið en þau Selma, auk Sveinbjörns I. Baldvinssonar, sömdu textann. Þetta var hinn sami Sveinbjörn og hafði þremur árum fyrr lagst gegn því sem dagskrárstjóri innlends efnis hjá Ríkissjónvarpinu, að Íslendingar tækju þátt í Eurovision.
Lagið sem hlaut titilinn All out of luck kom út á smáskífu og naut strax mikilla vinsælda. Þar var lagið í þremur útgáfum og það kom ennfremur út á safnplötunum Pottþétt 16.
Selma og Þorvaldur Bjarni fóru til Jerúsalem í Ísrael með fríðu föruneyti, m.a. Tveimur dönsurum, og gerðu góða ferð. Strax var ástæða til bjartsýni þegar fjölmiðlar og veðbankar gerðu því skóna að laginu myndi ganga vel. Og svo fór reyndar, lagið endaði í öðru sæti eftir harða baráttu við Svía sem sigruðu að þessu sinni.
Í kjölfar þessa besta árangurs sem Íslendingar höfðu náð í Eurovision snarhljóðnuðu þær gagnrýnisraddir sem hvað hæst höfðu um flutning lagsins á ensku og hefur framlag okkar æ síðan verið flutt á ensku. Það var þó ekki alveg átakalaust eins og síðar verður komið að.
Selma og Þorvaldur Bjarni hömruðu járnið á meðan heitt var og skelltu í plötu sem kom út um haustið, hún hlaut nafnið I am og naut mikilla hylli hér heima, hún kom einnig út í nokkrum löndum en þau höfðu landað plötusamningi í kjölfar árangurins í Eurovision. All out of luck kom einnig út á tveimur safnplötum í viðbót áður en árið var úti, sem og nokkur önnur lög plötunnar. Hljómsveit Þorvaldar, Todmobile var einnig sett í gang við þetta tækifæri eftir nokkurra missera pásu og hafði Selma túrað með henni um sumarið og haustið.