Orange empire (1989-94)

Orange empire1

Orange empire

Orange empire var undanfari Birthmark sem margir þekkja.

Sveitin var stofnuð síðla árs 1989 og var hálfgert hljóðversverkefni Valgeirs Sigurðssonar gítarleikara og Svans Kristbergssonar söngvara og kom til að mynda ekki fram á tónleikum fyrr en 1992, þá hitaði dúettinn upp fyrir Tori Amos.

Í kjölfarið fóru þeir félagar að koma meira fram opinberlega og höfðu sér þá til fulltingis sérlega aðstoðarmenn, þá Lárus Sigurðsson gítarleikara, Einar Val Scheving trommuleikara, Sigurð Ragnarsson hljómborðsleikara og Birgi Bragason bassaleikara. Þeir voru þó aldrei í Orange empire.

Ekki fór mikið fyrir Orange empire en þeir vöktu þó einhverja athygli fyrir tvö lög sem þeir sendu frá sér og komu út annars vegar á plötu með tónlistinni úr kvikmyndinni Veggfóðri, hins vegar á safnplötunni Núll og nix. Tónlist þeirra fékk ágæta gagnrýni í fjölmiðlum þess tíma en hana skilgreindu þeir sjálfir sem innvortis popp.

Þeir Valgeir og Svanur hugðu alltaf á plötuútgáfu og komu sér í sambönd erlendis og þegar að því kom að gefa plötuna út árið 1994 var ákveðið að Orange empire myndi skipta um nafn, upp frá því hét sveitin Birthmark og er mun þekktari undir því nafni.