
Ozon
Hljómsveitin Ozon (Ózon) starfaði á Norðfirði, upphaflega meðal nokkurra nemenda í Verkmenntaskóla Austurlands þar í bæ en sveitin var stofnuð árið 1990 upp úr tveimur hljómsveitum, Kannsky og Timburmönnum.
Framan af voru það þeir Einar Ágúst Víðisson söngvari og gítarleikari, Daníel Arason hljómborðsleikari, Viðar Guðmundsson bassaleikari, Bjarni F. Ágústsson gítarleikari og söngvari og Marías B. Kristjánsson trommuleikari sem skipuðu þessa sveit, síðar komu inn í hana Einar Solheim hljómborðs- og saxófónleikari og Helgi Georgsson hljómborðsleikari en Ozon skartaði þá tveimur hljómborðsleikurum.
Upphaflegt nafn sveitarinnar var Vanir menn að austan og um tíma gekk hún undir nafninu Poppvélin en eftir að sveitinni bárust hótanir um lögsókn frá samnefndri hljómsveit á höfuðborgarsvæðinu var nafni hennar aftur breytt.
Sveitin starfaði a.m.k. til ársins 1998 en um það leyti fór Einar Ágúst suður á bóginn til að ganga til liðs við Skítamóral og í framhaldi af því tók hann þátt í Eurovision fyrir hönd þjóðarinnar og varð þar með eitt af óskabörnum þjóðarinnar.
Ozon hefur margsinnis komið saman og leikið á Norðfirðingaböllum og víðar síðan, og hefur því eiginlega aldrei hætt. Sveitin kom síðast saman árið 2024 og gefið hefur verið í skyn að frumsamið efni með henni komi til með að líta dagsins ljós.














































