Sigurður Sigurðsson heiðursfélagi Blúsfélags Reykjavíkur 2015

Sigurður Sigurðsson heiðursverðlaunahafi Blúshátíðar 20151

Sigurður Sigurðsson heiðurfélagi Blúsfélags Reykjavíkur 2015, ásamt Þorsteini G. Gunnarssyni og Birgi Baldurssyni.

Við setningu Blúshátíðar í Reykjavík 2015 sl. laugardag, var Sigurður Sigurðsson munnhörpuleikari og söngvari útnefndur heiðursfélagi Blúsfélags Reykjavíkur.

Sigurður hefur verið  áberandi í íslenskri blústónlist áratugum saman, hann var söngvari og blés í munnhörpu með hljómsveitinni Kentár (Centaur) sem stofnuð var árið 1982. Kentár var öflug tónleikasveit sem kom með ferska strauma inn í blúslíf landsmanna. Sigurður er einnig meðlimur í Tregasveitinni, þeirri goðsagnakenndu blúshljómsveit sem hefur starfað frá 1988, og hefur spilað með fjöldi hljómsveita og tónlistarmanna, bæði á tónleikum og plötum. Þar má nefna plötur Woofer, Árna Johnsen, Ásgeirs Óskarssonar, Sálararinnar hans Jóns míns, Rikshaw, Mannakorna, Páls Óskars, Pláhnetunnar, Harðar Torfa, Stefáns Hilmarssonar, Stjórnarinnar, Jóhanns Helgasonar og Geirmundar Valtýssonar, auk margra annarra. Sigurður hefur sjálfur gefið út nokkrar sólóplötur.

Aðrir heiðursfélagar Blúsfélags Reykjavíkur til þessa eru Magnús Eiríksson (2004), Björgvin Gíslason (2005), Andrea Gylfadóttir (2006), Kristján Kristjánsson (2007), Ásgeir Óskarsson (2008), Pinetop Perkins (2009), Deitra Farr (2010), Guðmundur Pétursson (2011), Pétur Tyrfingsson (2012), Halldór Bragason (2013) og Jón Ólafsson (2014).

Blúshátíð í Reykjavík 2015 er nú í fullum gangi og hægt er að kaupa miða á miði.is og við innganginn á Hilton Reykjavík Nordica, þar sem hátíðin fer að mestu fram.