Jetz (1996-97)

Jetz

Jetz

Jetz var skammlíf hljómsveit sem starfaði í rétt tæpt ár og hafði lítil áhrif á framvindu íslenskrar tónlistarsögu.

Upphafið af sveitinni má rekja til að Gunnar Bjarni Ragnarsson sem hafði orðið þekktur í hljómsveitinni Jet black Joe hugði á sólóplötu sem hann byrjaði að vinna í Liverpool Institute for Performing Arts (LIPA) þar sem hann var við nám.

Fyrsta lagið, We come in peace, gaf hann út á safnplötunni Drepnir, undir nafninu Jet black (sem augljóslega er bein skírskotun í JBJ) en þegar tvíburarnir Kristinn og Guðlaugur Júnínussynir komu inn í verkefnið var sólóverkefninu breytt í tríó sem hlaut nafnið Jetz. Gunnar Bjarni hætti í náminu og þeir félagar helltu sér á fullt í gerð plötunnar sem fékk nafn sveitarinnar í titil. Hún var tekin upp í Stöðinni um sumarið undir stjórn Ólafs Halldórssonar.

Platan, sem kom út fyrir jólin 1996 vakti svo sem ekki mikla athygli en hlaut þó ágæta dóma í Alþýðublaðinu og Degi-Tímanum, og þokkalega í Morgunblaðinu. Það vakti hins vegar nokkra athygli að bandaríska söngkonan Kate Nelson sem kom lítillega við sögu á plötunni var ýmist sögð í fjölmiðlum vera frænka eða dóttir hins eina sanna Willie Nelson

Sveitin spilaði sig saman á nokkrum tónleikum fyrir jólin en fylgdi plötunni að öðru leyti lítið eftir. Í tónleikaútgáfu sveitarinnar voru Gunnar Bjarni sem lék á gítar og söng, Kristinn bassaleikari, Guðlaugur trommuleikari og Þórhallur Bergmann hljómborðsleikari en sá síðast nefndi kom við sögu á plötunni. Einnig söng Marín Manda Magnúsdóttir eitthvað með þeim á tónleikum, sem og Móeiður Júníusdóttir systir bræðranna en hún söng á plötunni.

Þegar á reyndi áttu þeir bræður og Gunnar Ragnar litla samleið í tónlistinni og fljótlega eftir áramótin 1996-97 leystist Jetz upp, Kristinn og Guðlaugur stofnuðu ásamt Þórhalli Bergmann aðra sveit, Vinyl en Gunnar Bjarni birtist næst með sveitina Mary Poppins, sem báðar gáfu út plötur.

Þrjú lög af plötunni rötuðu inn á þrjár safnplötur sem komu út á þessum árum, Pottþétt ’96 (1996), Icelandic rock favourites (2000) og Ferming ’97 (1997).

Efni á plötum