Jötunuxar (1990-94)

Jötunuxar

Jötunuxar

Rokksveitin Jötunuxar var stofnuð í Reykjavík haustið 1990 en einhverjir meðlima hennar höfðu þá áður verið í Centaur. Í upphafi kölluðu þeir félagar sig Fullt tungl og náðu að koma út lagi á safnplötunni Hitt og þetta aðallega þetta alla leið undir því nafni, og þá skipuðu sveitina þeir Rúnar Örn Friðriksson söngvari, Guðmundur Gunnlaugsson trommuleikari, Hlöðver Ellertsson bassaleikari, Jón Óskar Gíslason gítarleikari og Jósef Sigurðsson hljómborðsleikari. Jósef staldraði ekki lengi við og hætti fljótlega.

Jötunuxarnir fóru af stað með nokkrum látum staðráðnir í að vekja sem mesta athygli, og besta aðferðin til þess var að gefa út plötu. Og svo fór að fjögurra tommu tólf tomma kom út um vorið 1991 í fimm hundruð eintökum en skífuna gáfu þeir út sjálfir.

Þeir Jötunuxar sömdu tvö laganna sjálfir, eitt fengu þeir hjá Guðmundi Jónssyni (Sálin hans Jóns míns o.fl.) sem stjórnaði upptökum á plötunni en fjórða lagið var lagið Vilji Sveins sem Lónlí blú bojs hafði gefið út 1975, sjálfur Rúnar Júlíusson söng sem gestur í því lagi en það varð eina lagið sem vakti einhverja athygli.

Uppistaðan í ballprógrammi Jötunuxa var einkum þungarokk frá ýmsum tímum og þeir lögðu mikið upp úr líflegri sviðsframkomu sem varð til þess að mikið stuð myndaðist á böllum sveitarinnar. Mikil stemming myndaðist því oft þegar Jötunuxarnir spiluðu á heimavelli sínum í Grjótinu við Tryggvagötu.

Jötunuxar 1993

Jötunuxar 1993

Annar gítarleikari, Svavar Sigurðsson bættist í hópinn 1992 og þannig starfaði sveitin fram á haustið en fór þá í pásu. Jötunuxar komu aftur  fram á sviðið fljótlega eftir áramótin 1992-93 og spiluðu eftir það með hléum þar til þeir hættu síðsumars 1994. Sveitin hafði tekið upp breiðskífu veturinn 1992-93 eftir því sem heimildir herma en engar upplýsingar er að finna um hana, hvort hún kom út.

Sveitin lék á tónlistarhátíðinni Íslensk tónlist 1993 sem haldin var þá um sumarið í Þjórsárdal en þeir félagar áttu þá ennfremur lag á samnefndri safnplötu sem kom út af sama tilefni.

Flestir meðlimir Jötunuxa stofnuðu nýja sveit upp úr leifum sveitarinnar en nýja bandið hafði allt aðrar og léttari áherslur en naut hins vegar meiri almennra vinsælda, það var hljómsveitin Sixties.

Jötunuxar hafa að minnsta kosti tvívegis komið saman í seinni tíð og leikið opinberlega.

Efni á plötum