
Pýþagóras 1995
Hljómsveitin Pýþagóras starfaði á höfuðborgarsvæðinu fyrir miðjan tíunda áratug síðustu aldar og keppti tvívegis í Músíktilraunum Tónabæjar.
Ekki liggur fyrir hvenær sveitin var stofnuð en hún keppti í Músíktilraunum vorið 1994 og spilaði þar eins konar fönkrokk, þá eru sagðir vera í sveitinni Birgir Hermannsson söngvari og gítarleikari, Hlynur Rúnarsson trommuleikari og söngvari og Einar Kári Möller bassaleikari.
Sveitin komst ekki í úrslit Músíktilraunanna en spilaði nokkuð um sumarið 1994, hún birtist síðan aftur vorið eftir (1995) og keppti á nýjan leik í tilraununum, þá voru þeir Hlynur og Einar Kári enn í sveitinni en auk þeirra eru Sverrir Árnason söngvari og Birgir Hlynason söngvari og gítarleikari sagðir vera í henni og hafði því fjölgað um einn meðlim.
Hér er giskað á að einhver misskilningur sé á ferðinni varðandi Birgi (Hermannsson / Hlynason) og í raun sé þarna um að ræða Birgi Hilmarsson sem þekktastur er fyrir að hafa verið í sveitum eins og Ampop og fleiri sveitum, auk þess að starfa sem sólólistamaður undir nafninu Biggi Hilmars.
Pýþagóras komst ekki í úrslit Músíktilraunanna vorið 1995 fremur en árið áður, og hætti líklega fljótlega eftir keppnina.














































