Egla (1980 / 2006-)

Egla2

Egla

Hljómsveitinni Eglu frá Fáskrúðsfirði skaut snögglega upp á stjörnuhimininn haustið 1981 þegar hún gaf út sína fyrstu og einu plötu en hún hvarf þaðan jafnharðan litlu síðar þegar plötugagnrýnin varð í neikvæðari kantinum.

Sveitin var að líkindum stofnuð snemma árs 1980 upp undir nafninu Standard en breytti nafni sínu í Eglu eftir mannabreytingar sumarið 1981 og var þá skipuð þeim Ævari Agnarssyni söngvara og gítarleikara, Brynjari Þráinssyni trommuleikara, Árna Óðinssyni söngvara og gítarleikara, Hallgrími Bergssyni hljómborðsleikara og Birni Vilhjálmssyni bassaleikara. Sveitin varð strax dugleg í spilamennsku einkum norðanlands og austan en lék einnig eitthvað á höfuðborgarsvæðinu meðan hún starfaði.

Egla tók fljótlega þann pól í hæðina að gefa út plötu og dreif sig í hljóðver Pálma Guðmundssonar, Stúdíó Bimbó á Akureyri um sumarið. Platan, sem að mestu hafði að geyma laga- og textasmíðar hljómsveitarmeðlima, kom út um haustið og hlaut nafnið Maður er manns gaman (úr Hávamálum) en sjálf sveitin skírskotaði til Egils sögu Skallagrímssonar með nafni sínu, það má því segja að bókmenntaarfurinn hafi verið þeim hugleikinn. Platan hlaut þó ekki þá athygli og jákvæðni sem þeir Eglu-liðar vonuðust til því hún hlaut mjög slaka dóma í Dagblaðinu og fremur slaka í Morgunblaðinu.

Egla

Fljótlega eftir það niðurrif virðist hafa fjarað undan sveitinni, að minnsta kost heyrðist ekkert til hennar fyrr en sumarið 2006 sem hún var endurreist í tilefni af bæjarhátíð fyrir austan. Þá lék Óðinn Gunnar Óðinsson á bassa í stað Björns. Af því tilefni var Maður er manns gaman endurútgefin (á geislaplötu) með nokkru af aukaefni (demó upptökum frá 1981).

Öllum á óvörum birtist Egla skyndilega aftur árið 2014, og var þá með nýja plötu í farteskinu. Hún hét Þyrnirós og hafði að geyma nýtt efni auk nýrra útgáfa af eldri lögum sveitarinnar, sveitin hafði þarna fengið til liðs við sig Hlyn Hallgrímsson söngvara (1860, The Telepathetics o.fl.) en ekki er ljóst hvort sveitin var þarna aftur tekin til starfa eða hvort einungis var þarna um að ræða þörf fyrir að koma frumsaminni tónlist á framfæri. Alltént lék sveitin eitthvað opinberlega um það leyti er platan kom út.

Efni á plötum