Einar Ólafsson (1963-)

Einar Ólafsson

Einar Ólafsson

Einar Sigmar Ólafsson frá Hafnarfirði (f. 1963) var ein fyrsta íslenska barnastjarnan og skaut upp á íslenskan stjörnuhimin þegar hann birtist á sjónvarpsskjánum veturinn 1972-73 og söng lagið Þú vilt ganga þinn veg, amerískt trúarlag við texta móður hans, Guðleifar Einarsdóttur, áður hafði hann verið í alls kyns söngstarfi svosem kórum og hafði einnig sungið í Þjóðleikhúsinu og hafði því þegar nokkra reynslu.

Í kjölfarið sjónvarpsþáttarinars var lagið tekið upp ásamt öðru, sem var eftir hann sjálfan. Þau komu út á lítilli plötu sem SG-hljómplötur gaf út, og naut Þú vilt ganga þinn veg nokkurra vinsælda í kjölfarið. Sagan segir að Einar sem var aðeins um tíu ára gamall, hafi ekki verið fullsáttur við tiltækið sem ku hafa verið að frumkvæði móðurinnar enda hafi hann lent illilega í stríðni og einelti skólafélaga og annarra, sem ekki varð lát á næstu árin. Ekki bætti úr skák að gagnrýnandi Morgunblaðsins gaf plötunni slaka dóma og sagði nánast beinlínis að Einar, tíu ára gamli söngvarinn, væri misheppnaður.

Einar hefur meðal gárunganna síðan oft verið kallaður Einar áttavillti og lagið hefur í raun síðan verið eins konar tilefni gríns sem flestir þekkja, og hafa menn notað það við ýmis tilefni, sungið á sveitaböllum og jafnvel gefið út með afbökuðum textum. Það gerðu t.d. Bifhjólasamtök lýðveldisins á plötunni Sniglar í söngolíu (1994) og KFUM & the andskodans á safnplötunni Lagasafnið 5 (1996), en báðar voru sveitirnar tengdar Sniglabandinu sem er þekkt fyrir glens.

Það þarf því ekki að koma á óvart að Einar var lítt viðloðandi tónlist næstu árin þótt eitthvað syngi hann opinberlega í kjölfar útgáfu plötunnar, hann var þó um tíma í hljómsveitinni Pass (sem síðar varð að Gildrunni) í kringum 1980 og mörgum árum síðar (árið 2000) sá hann orðið björtu hliðarnar á öllu saman og tróð upp með hljómsveitinni Trípólí þar sem hann söng lagið margfræga. Tenging Einars við tónlist er þó ekki að öllu lokið því 2003 giftist hann annarri fyrrverandi barnastjörnu, Hönnu Valdísi Guðmundsdóttur sem kunnust var fyrir söng sinn um Línu Langsokk. Þau höfðu kynnst í Krossinum í Kópavogi, en þangað hafði hann sótt styrk þegar mest á reyndi.

Einar sinnti ýmsum störfum í gegnum tíðina en hefur nú um árabil starfað við og rekið pústþjónustufyrirtæki auk þess að flytja inn flugelda um áramót, hann hefur ekki komið nálægt tónlist undanfarin ár utan þess að vera í söngstarfi innan trúarstarfsins, gospelhópnum GIG (Gospel Invation Group).

Efni á plötum