
Ásta Sveinsdóttir
Ásta Sveinsdóttir (f. 1895 í Stykkishólmi) er ekki þekktasta nafnið í íslenskri tónlistarsögu en hún var fyrst og fremst lagahöfundur og tónlistarkennari, kenndi bæði á gítar og píanó. Tónlistin varð aldrei hennar aðalstarf en kennsluna stundaði hún samhliða rekstri mjólkurbúða og veitingastaða.
Lög Ástu urðu einna þekktust í tengslum við sönglagakeppnir SKT hér á árum áður en þar tók hún iðulega þátt, þá einna fyrst kvenfólks.
Þótt ekki ynni hún nema einu sinni til verðlauna komust lög hennar oft í úrslit slíkra keppna, síðast þegar Ásta var komin yfir sjötugt. Texta við lög sín vann Ásta aldrei sjálf heldur var gerð þeirra í höndum skálda eins og Núma Þorbergs, Árna úr Eyjum, Kristjáns frá Djúpalæk o.fl.
Þekktast laga Ástu er án efa lagið Bláu augun sem Haukur Morthens söng um árið (og Garðar Thór Cortes löngu síðar), meðal annarra laga mætti nefna Rósin mín (flutt af Ingibjörgu Þorbergs), Stefnumótið, Þú sefur, Á Hveravöllum, Ég vildi svo fáein séu nefnd en flest þeirra komu út á plötum á sínum tíma.
Á síðari æviárum sneri hugur hennar að sönglögum í stað dægurlaga og fluttu margir af okkar ástsælustu einsöngvurum lög hennar s.s. Kristinn Hallsson, Sigurður Ólafsson og Sigurveig Hjaltested. Fæst þeirra laga hafa komið út á plötum en mörg þeirra eru þó varðveitt í tónlistarsafni Ríkisútvarpsins.
Ásta lést í Reykjavík 1973.