
Alvaran
Hljómsveitin Alvaran lék á sveitaböllum um land allt um nokkurra mánaða skeið sumarið 1994.
Sveitin var stofnuð snemma árs 1994 og voru meðlimir hennar Grétar Örvarsson söngvari og hljómborðsleikari, Ruth Reginalds söngkona, Kristján Edelstein gítarleikari, Jóhann Ásmundsson bassaleikari og Sigfús Óttarsson trommuleikari.
Alvaran tók upp tvö lög sem fóru á safnplötuna Ýkt böst sem út kom á vegum Spors um vorið. Lögin tvö, Hvað er að ske? og Leikur að vonum nutu vinsælda og á þeim var keyrt um sumarið á sveitaböllunum þótt reyndar væri mætingin misjöfn, eins og einn fjölmiðillinn gerði að fréttaefni þegar enginn mætti á ball með sveitinni.
Alvaran hætti störfum um haustið eins og ráð hafði verið fyrir gert, enda eingöngu keyrt á sumarballmarkaðinn.