Band nútímans (1982-85)

Band nútímans

Band nútímans

Hljómsveitin Band nútímans starfaði í Kópavogi á árunum 1982-85 og vakti töluverða athygli á sínum tíma, einkum fyrir að lenda í öðru til þriðja sæti í Músíktilraunum Tónabæjar haustið 1983 ásamt Þarmagustunum en Dúkkulísurnar sigruðu það árið. Í kjölfar árangursins í Músíktilraununum kom út lag með sveitinni á safnplötunni SATT 3.

Sveitin sem spilaði nýrómantík í anda Duran Duran og fleiri hafði gengið í gegnum einhverjar mannabreytingar í upphafi og gengið undir nöfnunum Just now og Orion en kjarni hennar var yfirleitt sá sami, Magnús Árni Magnússon söngvari og hljómborðsleikari, Ævar Sveinsson (Uzz o.fl.) gítarleikari, Gunnar Ólafsson bassaleikari, Finnur Frímann Pálmason/Guðrúnarson gítarleikari og Pétur Jónsson trommuleikari en einnig komu þeir Sváfnir Sigurðarson hljómborðsleikari og Ríkharður Fleming Jensen trommuleikari við sögu sveitarinnar. Einnig mun trommuleikari að nafni Kristján Pétur Vilhelmsson hafa verið í sveitinni á einhverjum tímapunkti.

Um tíma, sumarið 1985, kallaði sveitin sig Twilight toys og söng þá á ensku en það stóð stutt yfir, nafninu var þá aftur breytt í Band nútímans og undir því nafni starfaði hún þar til þeir breyttu því í Antarah 1986.

Sveitin kom aftur saman 2007 og héldu nokkra tónleika í Kópavogi.