DRON [2] (1982-83)

Dron (2)

Dron

DRON (Danshljómsveit Reykjavíkur og nágrennis) hin síðari verður fyrst og fremst minnst í íslenskri tónlistarsögu sem fyrsta sveitin til að sigra Músíktilraunir Tónabæjar en það var árið 1982.

Sveitin mun upphaflega hafa innihaldið sex meðlimi en hún var stofnuð til að keppa í hæfileikakeppni í Kópavogi, þeir voru þá líklega á aldrinum 13 – 14 ára.

Haustið 1982 keppti DRON í áðurnefndum Músíktilraunum og sigruðu en Einar Þorvaldsson gítarleikari (Centaur), Máni Svavarsson hljómborðsleikari (Pís of keik, Tweet o.fl.), Óskar Þorvaldsson trommuleikari, Bragi Ragnarsson söngvari og Björn Gunnarsson bassaleikari skipuðu þá sveitina. Áður hafði Einar spilað á trommur en færði sig yfir á gítar þegar Óskar bættist í hópinn.

Þrátt fyrir velgengni í keppninni og mikla spilamennsku í kjölfarið lognaðist starfsemin smám saman útaf og hætti DRON síðan störfum 1983 en Bragi söngvari var þá fluttur erlendis. Sveitin kom þó aftur saman og spilaði í útvarpi 1986.

Hluti af verðlaununum í Músíktilraunum voru hljóðverstímar sem DRON nýtti sér og komu út tvö lög með sveitinni á safnplötunni SATT 2 (1984).