Einsöngvarakvartettinn (1969-78)

Einsöngvarakvartettinn 1972

Einsöngvarakvartettinn 1972

Einsöngvarakvartettinn var eins og margt annað, hugmynd Svavars Gests skemmtikrafts og hljómplötuútgefanda (SG-hljómplötur) en hann hafði frumkvæði að stofnun kvartettsins vorið 1969 fyrir gerð sjónvarpsþáttar sem sýndur var í Ríkissjónvarpinu. Í upphafi var kvartettinn skipaður þeim Magnúsi Jónssyni, Guðmundi Jónssyni, Kristni Hallssyni og Guðmundi Guðjónssyni sem allir voru kunnir einsöngvarar.

Eftir sýningu þáttarins spurðist ekkert til kvartettsins fyrr en haustið 1972 þegar áðurnefndur Svavar gaf út plötu með þeim en þá hafði Sigurður Björnsson leyst Guðmund Guðjónsson, sem var þá hættur að syngja, af hólmi. Kvarettinn sem fyrrum hafði verið nafnlaus hlaut nú nafnið Einsöngvarakvartettinn og var platan samefnd honum, hún naut strax vinsælda, seldist vel og lög eins og Í fyrsta sinn ég sá þig, varð feikivinsælt í útvarpi. Magnús Ingimarsson sem vann náið með Svavari á þessum árum annaðist radd- og útsetningar sem og stjórn kvartettsins en Ólafur Vignir Albertsson undirleikari var þeim innan handar á plötunni sem og þegar kvartettinn tróð upp opinberlega.

Einsöngvarakvartettinn mun ekki hafa starfað samfleytt það sjö ára tímabil sem saga hans spannar enda voru söngvararnir fjórir hlaðnir störfum annars staðar, hann kom þó reglulega saman og söng á þjóðhátíðardegi okkar Íslendinga og við önnur hátíðleg tilefni. Þorsteinn Hannesson og Garðar Cortes munu t.d. hafa leyst Sigurð af hólmi þegar hann átti ekki heimangengt en hann bjó og starfaði í Þýskalandi á þessum tíma.

Árið 1978 kom út önnur plata á vegum SG-hljómplatna með Einsöngvarakvartettnum, nú með lögum Inga T. Lárussonar tónskálds. Hún hlaut alveg jafn góðar viðtökur og sú fyrri enda var uppskriftin hin sama, léttleikinn í fyrirrúmi undir stjórn Magnúsar Ingimarssonar. Þrátt fyrir það virðist sem sögu kvartettsins hafi þá verið lokið enda voru þeir önnum kafnir allir fjórir.

Lög kvartettsins hafa lifað ágætu lífi í dagskrá Ríkisútvarpsins og einhver þeirra komu út á safnútgáfum næstu árin, þar má nefna Stóra bílakassettan II (1979) og V (1980) og Söngvasjóður (1993) en auk þess söng Einsöngvarakvartettinn lag eftir Gunnar Thoroddsen á minningarplötu um hann (Tónlist Gunnars Thoroddsen) sem út kom á vegum Fálkans 1983. Það lag hafði ekki komið út áður og var líkast til tekið upp þá, þó kvartettinn hefðu þá nokkrum árum áður hætt störfum.

Efni á plötum