
Exit
Hljómsveitin Exit frá Akureyri var thrashmetal-sveit, stofnuð 1989 en komu ekki fram á sjónarsviðið fyrr en árið eftir þegar út kom snælda, samnefnd sveitinni – líklega jafnvel tvær slíkar. Vorið 1991 keppti sveitin í Músíktilraunum Tónabæjar og komst þar í úrslit. Sveitin var þá skipuð þeim Jóhanni Elvari Tryggvasyni söngvara, Baldvini Ringsted Vignissyni gítarleikara, Magnúsi Rúnari Magnússyni trommuleikara (Útópía) og Aðalsteini Jóhannssyni bassaleikara (Útópía).
Síðar bættist Þormóður Aðalbjörnsson söngvari (Smarty pants) í hópinn og einhverjar heimildir eru til um annan trommuleikara (Jón „Richter“ – sem hugsanlega gæti hafa verið Jóhann Richardsson). Jafnframt gæti hafa verið gítarleikari að nafni Jóhannes Sigurðsson í sveitinni. 1991 átti sveitin lag á snældunni Snarl III.
Exit starfaði a.m.k. til ársins 1992. Það vor var sveitin líklega skráð til leiks í Músíktilraunir en mætti ekki til leiks af einhverjum ástæðum.
Sveitin lá í dvala í áratugi uns hún var endurvakin síðla hausts 2018, þá komu upprunalegir meðlimir hennar saman og tóku upp tvö lög sem komu út á sjö tommu vínyl á vegum Reykjavík records shop vorið 2019, í númeruðu fimmtíu eintaka upplagi.














































