Fiðrildi (1969-70 / 1974)

Fiðrildi21

Fiðrildi

Þjóðlagatríóið Fiðrildi var starfandi upp úr þjóðlagasveitavakningu sem gekk yfir á Íslandi rétt um 1970, í kjölfar hippabylgjunnar. Fiðrildi náði að koma út lítilli plötu sem sýndi þó tríóið engan veginn í réttu ljósi

Tríóið var stofnuð í október 1969 og var frá upphafi skipað þeim Hannesi Jóni Hannessyni gítarleikara, Snæbirni Kristjánssyni kontrabassaleikara (Nútímabörn) og Helgu Steinsson söngkonu, öll sungu þau reyndar og vöktu strax athygli fyrir raddsetningar sínar.

Fiðrildi kom nokkuð fram á tónleikum og einkum samkomum sem haldnar voru í tengslum við Vikivaka, hóps áhugafólks um þjóðlagatónlist sem starfandi var 1969-72. Einnig söng og spilaði tríóið í nokkrum sjónvarpsþáttum, þar af í barnatíma sjónvarpsins ásamt börnum úr Mýrarhúsaskóla. Það varð kveikjan að því að Fiðrildi tók upp nokkur amerísk barnalög með íslenskum textum hjá Pétri Steingrímssyni hjá Ríkisútvarpinu síðsumars 1970.

Þegar platan kom út rétt fyrir jólin var tríóið hætt störfum, hafði hætt mjög snögglega en ekki liggur fyrir hvers vegna. Platan fékk hins vegar glimrandi dóma í Vikunni og Vísi en fremur slaka í Morgunblaðinu. Lögin nutu nokkurra vinsælda, sérstaklega Aba-daba brúðkaupsferð og Í dýragarð ég fer en síðarnefnda lagið var t.d. tekið upp af tvíeykinu Gunni & Felix löngu síðar.

Einhver orðrómur var um að sveitin væri að byrja aftur sumarið 1971 en í blaðaviðtölum kom fram að það væri ekki á dagskránni, hins vegar um haustið var eitthvert Fiðrildi á ferli sem tróð upp á héraðsmótum framsóknarmanna. Hugsanlega var þar á ferðinni þjóðdansaflokkur sem gekk undir sama nafni.
Þremur árum síðar kom tríóið aftur á móti saman fyrir þátt í Ríkissjónvarpinu en þar við sat. Þau Helga og Snæbjörn (þáverandi hjón) birtust næst í þjóðlagasveitinni Mýbiti en Hannes Jón kom víðar við, gaf út sólóplötur og var m.a. í Brimkló svo dæmi séu tekin.

Lög Fiðrildis hafa komið út á safnplötum í gegnum tíðina s.s. Aftur til fortíðar 70-80 III (1990), Barnagælur: söngvar um dýrin (1995), Barnagælur: 20 sígild barnalög (1991) og Barnagælur: þegar ég verð stór (1994).

Efni á plötum