Fimm í fullu fjöri (1958-60)

fimm í fullu fjöri2

Fimm í fullu fjöri

Fimm í fullu fjöri hefur oft verið nefnd fyrsta íslenska rokksveitin og um leið fyrsta íslenska unglingasveitin. Líklega er þarna nokkuð fast að orði kveðið en sveitin var allavega fyrsta sveitin af því tagi sem náði almennri hylli. Sveitin var skipuð nokkrum ungum hljóðfæraleikurum sem jafnvel þóttu nokkuð villtir og mun sveitin jafnvel stundum hafa verið nefnd Fimm fullir í fjöru, af gárungum þessa lands.

Kvintettinn var stofnaður um jólin 1958 og var upphaflega skipaður Erni Ármannssyni gítarleikara, Einari Blandon trommuleikara, Þorsteini Sigmundssyni bassaleikara, Carli Möller píanóleikara og Guðbergi Auðunssyni söngvara. Nafnið Fimm í fullu fjöri kom frá Magnúsi Björnssyni veitingamanni í Keflavík en hjá honum lék sveitin fyrst, í upphafi árs 1959.

Þótt sveitin starfaði ekki lengi urðu miklar mannabreytingar í henni, Gunnar H. Pálsson tók við bassanum af Þorsteini og Guðjón Margeirsson átti síðar eftir að eftir að leysa Gunnar af. Alfreð Alfreðsson trommuleikari mun einnig hafa verið í sveitinni (gæti hafa verið í upphaflegu útgáfunni, er jafnvel sagður hafa stofnað sveitina), sem og Björn G. Björnsson sem mun hafa verið síðastur trommuleikara í hljómsveitinni (síðar í Savanna tríóinu) en hann var einungis fimmtán ára þegar hann kom til sögunnar. Kjartan Norðfjörð víbrafónleikari mun einnig hafa bæst í hópinn og þá hefur líklega sveitin verið kvintett og söngvari. Þegar Guðbergi söngvara bauðst að syngja með KK sextett haustið 1959 varð Sigurður Johnnie söngvari sveitarinnar og einnig söng Díana Magnúsdóttir með henni um tíma, þá hafði sveitin verið ráðin til að spila í Iðnó. Þegar Carl Möller hætti í sveitinni um áramótin 1959/60 tók Gunnar Reynir Sveinsson víbrafónleikari við af honum en Fimm í fullu fjöri starfaði ekki lengi eftir það, Diskó sextett var hins vegar stofnuð upp úr sveitinni og var að nokkru leyti skipuð sama mannskap.

Fimm í fullu fjöri náði ekki að starfa nógu lengi til að leika inn á hljómplötu.