Fjarkinn [1] (1948-50)

Fjarkinn

Fjarkinn

Fjarkinn var strokkvartett sem kom nokkrum sinnum fram í útvarpi og við önnur tækifæri í kringum 1950.

Kvartettinn skipuðu þeir Sveinn Ólafsson lágfiðluleikari, Jóhannes Eggertsson sellóleikari og fiðluleikararnir Óskar I. Cortes og Þorvaldur Steingrímsson.
Fjarkinn var stofnaður sumarið 1948 og starfaði líklega til 1950 þegar Sinfóníuhljómsveit Íslands var stofnuð en þá mun eftirspurn eftir slíkum kvartett eðlilega hafa minnkað stórlega.

Kvartettinn kom þó saman 1954 og lék á norrænni tónlistarhátíð sem haldin var hérlendis það ár en líklega var það bara í eitt skipti.
Slíkir kvartettar höfðu þá tíðkast um árabil og spilað undir á plötum en voru yfirleitt nafnlausir. Fjarkinn er því að öllum líkindum sá fyrsti sem kom fram undir nafni. Ekki liggur fyrir hvort leik hans er að finna á plötum en það hlýtur að teljast sennilegt.