Grundartangakórinn (1979 -)

Grundartangakórinn hefur síðastliðin ár verið einn öflugasti starfsmannakór landsins og hefur hann haldið tónleika víðs vegar um landið og erlendis.

engin mynd tiltækKórinn sem er karlakór starfsmanna járnblendiverksmiðjunnar við Grundartanga, var stofnaður haustið 1979 nokkrum mánuðum eftir að verksmiðjan opnaði, af nokkrum áhugamönnum innan fyrirtækisins.

Fyrsti stjórnandi kórsins var Baldur Sigurjónsson en síðan þá hafa þó nokkrir komið að stjórnun hans, Matthías Jónsson, Bjarki Sveinbjörnsson, Lárus Sighvatsson, Lisbet Dahlin, Eyþór Ingi Jónsson og nú síðast Atli Guðlaugsson. Kórinn hefur aldrei verið mjög fjölmennur, mest hafa verið í honum um tuttugu manns en upphaflega innihélt hann einungis átta meðlimi, var þá tvöfaldur kvartett.

1991 kom út hljómplata (og snælda) með söng kórsins og bar hún nafn hans. Á plötunni var að finna svokallaðar léttari tónsmíðar, popplög raddsett fyrir kóra, en Grundartangakórinn hefur einbeitt sér að flutningi slíkrar tónlistar. Platan var tekin upp af Sigurði Rúnari Jónssyni en kórinn var þá undir stjórn Lárusar Sighvatssonar.

Grundartangakórinn átti einnig lag á safnplötunni Skagamenn skora mörkin (2007) auk þess að eiga efni á plötu Tónlistarsambands alþýðu (TÓNAL), Tónaltónum (1990).

Kórinn hefur farið í söngferðalög einkum innanlands, en einnig sungið erlendis s.s. á Íslendingahátíð í Kanada og kóramótum í Noregi þar sem hann vann til verðlauna 2011.

Efni á plötum