Hundur í óskilum (1994-)

Hundur í óskilum

Hundur í óskilum

Norðlenski dúettinn Hundur í óskilum á sér nokkuð langa sögu og flókna enda gengið undir ýmsum nöfnum. Að öllum líkindum var um að ræða tríó í upphafi, stofnað 1994 og gekk þá undir nafninu Valva og drengirnir en það skipuðu þá þau Guðríður Valva Gísladóttir flautuleikari, Eiríkur Stephensen og Hjörleifur Hjartarson en þeir tveir síðarnefndu spiluðu á eitt og annað.

Sveitin gekk undir öðrum nöfnum um tíma, t.a.m. Blóm og kransar og Börn hins látna en að lokum var tekið upp nafnið Hundur í óskilum (síðar um tíma kölluðu þeir sig Hundur í óskilum group), þá var tríóið orðið að dúett þeirra Hjörleifs og Eiríks. Líklega var það haustið 1997.

Eins og nöfn sveitarinnar gefa til kynna var grínið aldrei langt undan og brátt urðu þeir félagar þekktir fyrir fíflaskap sinn á tónleikum, einkum sneri það að óhefðbundinni spilamennsku á oft óhefðbundin hljóðfæri.

Þar kom að Hundur í óskilum gaf út plötu samnefnda sveitinni, árið 2002. Hún var tekin upp á tónleikum í Laugaborg í Eyjafjarðarsveit sumarið 2002 af Brynleifi Hallssyni, og vildu meðlimir dúettsins meina að heimsmet hefði verið slegið við gerð hennar, þ.e. að spilað var á blokkflautu af fjögurra metra færi á tónleikunum. Á plötunni er að finna lög eins og Riddari götunnar, Undir bláhimni og Álfheiður Björk, leikin og sungin á þeirra sérstaka máta.

Dúettinn hélt áfram sínu striki og önnur plata leit dagsins ljós fimm árum síðar (2005) og hlaut nafnið Hundur í óskilum snýr aftur. Að þessu sinni var platan tekin upp á tónleikum á Græna hattinum á Akureyri og var Brynleifur Hallsson sem fyrr við upptökur. Sveitin var við sama heygarðshornið og að þessu sinni fengu lög eins og Deus Sykurmolanna, La det swinge og Guttavísur að hljóma við góðar undirtektir áhorfenda.

Síðla vetrar 2010 vann sveitin að tónlist fyrir uppfærslu á leikritinu Íslandsklukkunni eftir Halldór Laxness, sem Þjóðleikhúsið frumsýndi þá um vorið.

Hundur í óskilum er enn starfandi og er fyrir löngu orðnir landsþekktir fyrir sprell, og hafa þeir m.a. heimsótt grunnskóla á landinu á vegum verkefnisins Tónlist fyrir alla, þar sem þeir bregða á leik.

Efni á plötum