Jakobínarína (2004-09)

Jakobínarína

Jakobínarína

Hljómsveitin Jakobínarína var stofnuð haustið 2004 af ungum Hafnfirðingum, sveitin mun hafa gengið undir ýmsum nöfnum fyrst um sinn s.s. Lufthanza, Banderas, Jólasveinninn, Leppalúði o.fl. Árið eftir (2005) tók Jakobínarína þátt í Músíktilraunum og sigraði þær. Meðlimir þá voru þeir Ágúst Fannar Ásgeirsson hljómborðsleikari (spilaði upphaflega á gítar í sveitinni), Björgvin Ingi Pétursson bassaleikari, Gunnar Bergmann Ragnarsson söngvari, Hallberg Daði Hallbergsson gítarleikari og Sigurður Möller Sívertsen slagverksleikari. Heimir Gestur Valdimarsson gítarleikari (Lada sport o.fl.) kom síðan inn í hópinn að Músíktilraunum loknum. Sveitin átti í framhaldinu lag á safnplötunni Rokkland 2005.

Sigur sveitarinnar í Músíktilraunum vakti að vonum athygli og þetta sama ár var hún kjörin nýliðar ársins á tónlistarverðlaunahátíð útvarpsstöðvarinnar XFM, hún hlaut einnig tilnefningu í flokknum bjartasta vonin á Íslensku tónlistarverðlaununum árið eftir (2006). Jakobínarína spilaði ennfremur á Iceland Airwaves tónlistarhátíðinni 2005 og hlaut í kjölfarið plötusamning við 12 tóna útgáfufyrirtækið, auk smáskífusamnings við Rough trade og síðan plötusamning við Parlophone.

Enn jókst hróður sveitarinnar er hún spilaði á tónlistarhátíðinni South by southwest (SXSW) í Bandaríkjunum, hún hlaut einnig jákvæða umfjöllun í Rolling stones tímaritinu.

Árið 2006 kom fyrsta plata sveitarinnar út, það var stuttskífan His lyrics are disastrous en árið eftir kom fyrsta breiðskífan, The first crusade. Hún fékk mjög góða dóma í tímaritinu Monitor og frábæra í Morgunblaðinu og Fréttablaðinu.

Í kjölfarið komu út tvær smáskífur, með lögunum Jesus og This is an advertisement, og svo virtist sem framtíðin brosti við sveitinni en snemma árs 2008 bárust þær fregnir af sveitinni að hún væri hætt og í blaðaviðtölum í kjölfarið sögðust meðlimir Jakobínurínu að þeir hefðu ekki verið tilbúnir fyrir alla þá athygli sem sveitin hafði hlotið. Sögu sveitarinnar var þó ekki alveg lokið því eftir að andlát hennar var gert opinbert að lagið I‘m a villain yrði í tölvuleiknum FIFA 2009. En þá var sagan öll.

Efni á plötum