Kjarabót [1] (1978-80)

Kjarabót

Kjarabót

Söngsveitin Kjarabót starfaði um tveggja ára skeið, stofnaður vorið 1978 og starfaði fram eftir sumri 1980. Lengi vel bar hópurinn ekkert nafn og var því iðulega kallaður Nafnlausi sönghópurinn en nafnið Kjarabót kom til sögunnar í febrúar 1979.

Fjöldi söngvara (og hljóðfæraleikara) var eitthvað á reiki en yfirleitt voru tíu til tólf manns í hópnum.

Eftirfarandi meðlimalisti er líklega ekki tæmandi en ákveðinn kjarni skipaði hópinn allan tímann á meðan aðrir komu og fóru: Árni Jóhannsson bassaleikari, Eiríkur Ellertsson söngvari, Fanney Jónasson söngkona og ásláttarleikari, Kristján Ingi Einarsson söngvari, bassa- og gítarleikari, Magna Guðmundsdóttir söngvari og fiðluleikari, Auður Haralds söngkona, Þorvaldur Örn Árnason söngvari, bassa- og gítarleikari, Sigrún Einarsdóttir söngkona og ásláttarleikari, Margrét Örnólfsdóttir söngvari og gítarleikari, Pétur Guðlaugsson söngvari og gítarleikari, Sigurjón Bragi Sigurðsson trommu-, gítarleikari og söngvari, Stefán Jóhannsson söngvari og gítarleikari og Þórkatla Aðalsteinsdóttir söngkona og trommuleikari.

Kjarabót kom að plötu Heimavarnarliðsins, Eitt verð ég að segja þér sem herstöðvarandstæðingar gáfu út 1979, á henni er að finna fjölmörg lög með söngflokknum og er þeirra þekktast Þú veist í hjarta þér, sem hljómsveitin Hjálmar gáfu út áratugum síðar. Lögin voru síðan endurútgefin 1999 á plötunni Baráttusöngvar fyrir friði og þjóðfrelsi.