Lótus [2] (1982 – um 1990)

engin mynd tiltækLótus frá Selfossi var ein kunnasta sveitaballasveit Suðurlands um árabil. Sveitin var stofnuð haustið 1982 og var lengst af skipuð sama kjarnanum, þeim Hróbjarti Erni Eyjólfssyni bassaleikara, bræðrunum Hilmari hljómborðsleikara og Heimi trommuleikara Hólmgeirssonum, Gunnari Árnasyni (síðar hljóðmanni) gítarleikara og Kjartani Björnssyni söngvari.

Lótus keppti nýstofnuð í fyrstu Músíktilraunum Tónabæjar og SATT haustið 1982 en komst þar ekki í úrslit, einhver misskilningur hafði valdið því að meðlimir héldu að ekki þyrftu öll lögin í keppninni að vera frumsamin og voru því aðeins tvö lög af fjórum sem sveitin spilaði frumsamin. Hún komst því ekki í úrslit.

Sveitin spilaði í kjölfarið mikið á sveitaböllum um land allt, einkum sunnanlands, og starfaði hún allt fram á tíunda áratuginn, hversu lengi er þó ekki kunnugt.

Einhverjar mannabreytingar urðu í sveitinni eftir miðjan níunda áratuginn, Helgi Eiríkur Kristjánsson tók við bassanum af Hróbjarti 1985. 1986 söng Kristjana Stefánsdóttir með sveitinni og ári síðar hafði Hermann Ólafsson tekið við því hlutverki og gegndi því líklega til loka. Þá var Guðmundur Jónsson gítarleikari (Sálin hans Jóns míns o.m.fl.) í Lótus en einnig mun Heimir Eyvindarson hljómborðsleikari (Á móti sól o.fl.) hafa verið í sveitinni um tíma sem og Bragi Vilhjálmsson gítarleikari.

Lótus mun hafa átt eitt lag á snældu/cd-útgáfu safnplötunnar Bjartar nætur sumarið 1989 en þá tíðkaðist að snældur og geisladiskar (sem þá voru nýlunda) innihéldu aukalög umfram vínylútgáfuna.

Sveitin hefur eins og svo margar aðrar komið saman og spilað í seinni tíð, síðast 2007.