Lótus [2] (1982 – um 1990)

Lótus

Lótus frá Selfossi var ein kunnasta sveitaballasveit Suðurlands um árabil. Sveitin var stofnuð sumarið 1982 upp úr hljómsveitinni Stress og voru meðlimir sveitarinnar í upphafi þeir Gunnar Árnason gítarleikari (síðar hljóðmaður), Kjartan Björnsson söngvari, Hróbjartur Örn Eyjólfsson bassaleikari, Bragi Vilhjálmsson gítarleikari, Heimir Hólmgeirsson trommuleikari og Hilmar Hólmgeirsson hljómborðsleikari. Helgi E. Kristjánsson leysti síðan Hróbjart af hólmi.

Þannig skipuð starfaði sveitin fram á árið 1986 en upp úr því urðu mannabreytingar í henni, og er vart hægt að segja að um sömu sveit hafi verið að ræða. Hróbjartur bassaleikari kom aftur inn í sveitina og Kristjana Stefánsdóttir söng um tíma með sveitinni en hún hafði einnig verið í Stress, árið 1987 tók Hermann Ólafsson við söngnum en aðrir meðlimir voru þá Hróbjartur, Haukur Vagnsson trommuleikari, Heimir Eyvindarson (Á móti sól o.fl.) og Ari Einarsson gítarleikari en Guðmundur Jónsson gítarleikari (Sálin hans Jóns míns o.fl.) tók við af þeim síðast talda. Haukur starfaði með sveitinni til ársins 1988 en ekki liggur fyrir hvernig sveitin var skipuð eftir það.

Lótus keppti nýstofnuð í fyrstu Músíktilraunum Tónabæjar og SATT haustið 1982 en komst þar ekki í úrslit, einhver misskilningur hafði valdið því að meðlimir héldu að ekki þyrftu öll lögin í keppninni að vera frumsamin og voru því aðeins tvö lög af fjórum sem sveitin spilaði frumsamin. Hún komst því ekki í úrslit.

Sveitin spilaði í kjölfarið mikið á sveitaböllum um land allt, einkum sunnanlands, og starfaði hún allt fram á tíunda áratuginn, hversu lengi er þó ekki kunnugt.

Lótus mun hafa átt eitt lag á snældu/cd-útgáfu safnplötunnar Bjartar nætur sumarið 1989 en þá tíðkaðist að snældur og geisladiskar (sem þá voru nýlunda) innihéldu aukalög umfram vínylútgáfuna.

Sveitin hefur eins og svo margar aðrar komið saman og spilað í seinni tíð, síðast 2007.