Pöbb-bandið Rockola (1984-85)

Hluti Rockola

Hljómsveitin Rockola kenndi sig iðulega við Pöbb-inn við Hverfisgötu og var því ævinlega nefnd Pöbb-bandið Rockola.

Sveitin spilaði veturinn 1984-85 á umræddum stað og um jólaleytið 1984 gaf hún út fjögurra laga tólf tommu plötu með aðstoð Pöbb-sins, sem hafði að geyma jólalög. Þeim til aðstoðar á plötunni var m.a. trúbadorinn JoJo en hann samdi tvö laganna.

Meðlimir Pöbb-bandsins Rockola voru Bobby Harrison trommuleikari, Ágúst Ragnarsson gítarleikari, Pálmi J. Sigurhjartarson hljómborðsleikari og Viðar Sigurðsson söngvari og gítarleikari. Um vorið hafði Rafn Sigurbjörnsson tekið sæti þess síðast nefnda.

Sveitin starfaði eitthvað áfram fram á haustið 1985 en lagði þá upp laupana, hún virðist þó hafa verið endurvakin haustið 1989. Ekki liggur fyrir hverjir skipuðu bandið þá.

Efni á plötum