Róbert bangsi [1] (1973-75)

Ruth Reginalds4

Ruth Reginalds

Róbert bangsi var þekkt teiknimyndapersóna úr barnatíma Ríkissjónvarpsins á áttunda áratug tuttugustu aldar. Hann birtist fyrst í sjónvarpi 1973 og tveimur árum síðar komu út þrjár plötur tengdar honum, um það leyti var hann hvað vinsælastur meðal íslenskrar æsku.

Svo virðist sem útgefendurnir Ámundi Ámundason (ÁÁ records) og Jón Ólafsson og félagar í Demant hafi fengið sömu hugmyndina þegar þeir ákváðu að ráðast í plötur tengdar þessum vinsæla bangsa, en plöturnar komu út vorið 1975.

Demant gaf út breiðskífuna Róbert bangsi í Leikfangalandi þar sem einvala lið söngvara og leikara með Ruth Reginalds, stúlku sem þá hafði ekki náð tíu ára aldri, í fararbroddi en Magnús Kjartansson annaðist upptökustjórn. Lögin voru erlend og textar þýddir af Böðvari Guðmundssyni en hljóðfæraleikur var aðkeyptur. Tveggja laga plata kom einnig út til að styðja við útgáfu breiðskífunnar.

Platan hlaut ágætar viðtökur, t.a.m. þokkalega dóma í Þjóðviljanum. Heldur var þó hroðvirknislega unnið að útgáfunni og var t.d. nafn aðalsöngkonunnar ritað Rut Rekinalds á plötuumslögum beggja platnanna. Breiðskífan var endurútgefin af Skífunni 1993.

Um sama leyti kom út á vegum ÁÁ records önnur plata um björninn sem bar einfaldlega heitið Róbert bangsi, en sú plata var sett upp sem barnaleikrit með söngvum. Jakob Magnússon hafði yfirumsjón með verkinu og áðurnefnd Ruth Reginalds var einnig í aðalhlutverki á þessari plötu. Sami háttur var hafður á og á fyrrnefndu plötunni, hljóðfæraleikur var aðkeyptur en söngurinn íslenskur, ekki liggja þó fyrir upplýsingar um aðra söngvara og leikara en Ruth, Pétur Einarsson var þó í hlutverki sögumanns á plötunni sem fékk mjög góða dóma í Þjóðviljanum.

Einhverjar skærur munu hafa orðið milli útgefandanna vegna málsins en líklega urðu engin eftirmál af þeim viðskiptum.

Róbert bangsi varð vinsælasta lagið en það var á fyrrnefndu plötunni og hefur komið út á nokkrum safnplötum síðan, s.s. Barnagull (1986), Barnalög (1993), Stóra barnaplatan 3 (2002) og einnig á safnplötu Ruthar Reginalds, Bestu barnalögin (2003).

Lagið kom einnig út með Kötlu Maríu og Pálma Gunnarssyni á plötunni Katla og Pálmi syngja barnalög (1982) og með Margréti Eir á plötunni Uppáhaldslögin okkar (2003) Í þeim útgáfum hefur lagið einnig komið út á safnplötum.

Efni á plötum