Söngvakeppni Sjónvarpsins 1991 – Draumur um Nínu (Nína) / Nina

Eyjólfur Kristjánsson og Stefán Hilmarsson

Það má segja að þjóðin hafi enn verið í sigurvímu (þótt enginn hafi verið sigurinn) eftir árangur Sigríðar og Grétars í Zagreb, þegar næsta keppni var kynnt til sögunnar snemma árs 1991. 117 lög bárust í keppnina að þessu sinni og fyrirkomulag hennar var með þeim hætti að tíu lög voru valin í úrslit, kynnt í tveimur þáttum og kepptu síðan laugardagskvöldið 9. febrúar.

Lögin voru Á fullri ferð, sungið af Áslaugu Fjólu Magnúsdóttur og Sigríði Guðnadóttur (lagið er eftir Geirmund Valtýsson og textinn Aðalstein Ásberg Sigurðsson), Í dag flutt af Helgu Möller, Ernu Þórarinsdóttur, Kristján Gíslasyni og Arnari Frey Gunnarssyni (eftir Hörð G. Ólafsson og Aðalstein Ásberg Sigurðsson), Í einlægni, sungið af Ívari J. Halldórssyni (við eigið lag en texta Halldórs Lárussonar), Í fyrsta sinn, með Ruth Reginalds og Ingvari Grétarssyni (eftir Magnús Kjartansson og Aðalstein Ásberg Sigurðsson), Í leit að þér, flutt af Ruth Reginalds einnig (lag og texti eftir Ívar J. Halldórsson og Hákon Möller), Lengi lifi lífið, sungið af Jóhannesi Eiðssyni og Sigrúnu Evu Ármannsdóttur (lagið er eftir Friðrik Karlsson og textinn eftir Jóhannes og Eirík Hauksson), Mér þykir rétt að þú fáir að vita það, sungið af Sigríði Guðnadóttur (lag Ingva Þórs Kormákssonar við texta Péturs Eggerz), Nína í flutningi Stefáns Hilmarssonar og Eyjólfs Kristjánssonar (lagið er eftir Eyjólf), Stefnumót sungið af Kristjáni Gíslasyni (eftir Guðmund Árnason og Inga Gunnar Jóhannsson) og Stjarna, flutt af Jóhönnu Linnet (samið af Sigurði Sævarssyni og Baldri Þ. Guðmundssyni).

Nína sigraði en höfundur lagsins, Eyjólfur Kristjánsson hafði stuttu áður einnig sigrað í Landslagskeppninni, Í dag lenti í öðru sæti en Lengi lifi lífið varð í því þriðja.

Nína, sem nú hét orðið Draumur um Nínu (Nina á ensku), kom út á smáskífu (undir flytjendanafninu Stefan & Eyfi) en einnig á safnplötunum Icebreakers sem Steinar gáfu út til að kynna íslenska tónlist, og Bandalögum 3, þar var einnig að finna lagið Lengi lifi lífið sem lenti í þriðja sæti keppninnar. Á fullri ferð kom út á samnefndri plötu Geirmundar Valtýssonar sama sumar sem og lögin Í dag á safnplötunni Bandalög 4 og Í fyrsta sinn á safnplötunni Úr ýmsum áttum, önnur lög hafa líklega aldrei komið út.

Þeir félagar og fóstbræður, Stefán og Eyjólfur fóru til Rómar á Ítalíu með fylgdarliði og gerðu svosem enga stóra hluti í keppninni, lagið lenti í fimmtánda sæti af tuttugu og tveimur lögum.

Fyrir úrslitakvöldið 4. maí var höfundur lagsins Eyjólfur Kristjánsson harðorður í garð Ríkissjónvarpsins í blaðaviðtali en þar kom fram að hópnum hafði verið holað á lélegt gistiheimili víðs fjarri öðrum keppendum og var því í litlum tengslum við keppnina.

Spurningin er hvort rekja megi slakan árangur lagsins til þessa en af einhverjum ástæðum hefur lagið þó lifað lengur en flest íslensku laganna hverju sem það er að þakka. Lagið er löngu orðið sígilt hér heima en það er ekki sjálfgefið þegar um Eurovision lög er að ræða, erlendir aðdáendur keppninnar hafa einnig tekið lagið undir sína arma og margir munu víst eiga Nínu sem eitt af sínum uppáhalds.

Stefán og Eyjólfur voru reyndar ekki einu Íslendingarnir sem stigu á stokk á Ítalíu en Eiríkur Hauksson, þá búsettur í Noregi, var hluti af söngflokknum Just 4 fun og keppti fyrir Noregs hönd.

Efni á plötum