
Stjórnin á leið til Zagreb 1990
Snemma árs 1990 var flautað til leiks í nýrri undankeppni, og fyrirkomulag svipað því gamla tekið upp aftur. Áhugi fyrir keppninni glæddist nú á nýjan leik og yfir tvö hundruð lög bárust í hana, tólf þeirra voru valin í tvo undanúrslitaþætti og sex þeirra kepptu síðan í úrslitum sem fram fóru 10. febrúar.
Það voru lögin Eitt lag enn flutt af Sigríði Beinteinsdóttur og Grétari Örvarssyni (e. Hörð G. Ólafsson við texta Aðalsteins Ásbergs Sigurðssonar), Eitt lítið lag sem Helga Möller, Ágúst Ragnarsson og Sigurður Dagbjartsson fluttu (e. Björn Björnsson), Ég er að leita þín með Eyjólfi Kristjánssyni (e. Gísla Helgason), Ég læt mig dreyma í flutningi Ellenar Kristjánsdóttur (e. Friðrik Karlsson), Sú ást er heit með Björgvini Halldórssyni (e. Magnús Þór Sigmundsson) og Til þín, einnig flutt af Björgvini (e. Gunnar Þórðarson við texta Aðalsteins Ásbergs Sigurðssonar).
Stemmingin var mun betri en fyrir keppnina á undan og stuðlagið Eitt lag enn sigraði með fáheyrðum yfirburðum, Eitt lítið lag varð í öðru sæti og Til þín í því þriðja. Hörður, höfundur lagsins hafði starfað með Geirmundi Valtýssyni í hljómsveit þess síðarnefnda, og segir sagan að Geirmundur hafi brugðist reiður við enda ætti hann einkarétt á sveiflunni sem sigurlagið var kennt við, oft nefnt Geirmundarsveifla eða skagfirska sveiflan. Geirmundur átti ekki lag í úrslitunum að þessu sinni, í fyrsta skiptið.
Lagið var gefið út á smáskífu á íslensku og ensku (undir heitinu One more song, sem var sami titill og hafði verið á Hægt og hljótt þremur árum fyrr). Lagið Sú ást er heit kom ekki út fyrr en þremur árum síðar á plötu Magnúsar og Jóhanns, Lífsmyndum, lagið sem Eyjólfur Kristjánsson flutti, Ég er að leita þín, kom út á plötu höfundarins Gísla Helgasonar, Heimur handa þér 1991, og Ég læt mig dreyma í flutningi Ellenar Kristjánsdóttur kom einnig út 1991, á safnplötunni Bandalög 4. Lagið í þriðja sæti, Til þín, kom út löngu síðar á plötu Stefáns Hilmarssonar, Húmi (2009) en aldrei í flutningi Björgvins. Lagið í öðru sæti, Eitt lítið lag, hefur hins vegar aldrei komið út á plötu.
Eitt lag enn sló strax í gegn en menn leyfðu sér þó enga óþarfa bjartsýni minnugir reynslu fyrri ára, og þegar þau Sigríður og Grétar héldu til Zagreb í Júgóslavíu þar sem keppnin var haldin tóku þau afganginn af hljómsveit sinni, Stjórninni með í Eurovision. Þannig slógu þau tvær flugur í einu höggi því samnefnd plata frá sveitinni var væntanleg og því tækifæri að slá Eurovision ævintýrinu saman við plötuútgáfuna og selja í leiðinni fleiri eintök.
Reyndar höfðu yfirmenn RÚV aðrar hugmyndir um flutning á laginu, Sigríður og Grétar áttu að syngja lagið ein en með bakraddasöngvara með í för. Þau fengu þó í gegn eftir nokkurt hark að Stjórnin færi í keppnina eftir að hafa farið í gegnum eins konar „hæfnispróf“, þar sem kveðinn var upp sá úrskurður að meðlimir hljómsveitarinnar væru nógu hæfir til að syngja raddirnar.
Úrslitakeppnin var haldin 5. maí og fljótlega í stigagjöfunni var ljóst að íslenska laginu myndi ganga betur en fyrri ár. Enda fór svo að Eitt lag enn hafnaði í fjórða sæti við mikinn fögnuð Íslendinga. Stjórnin naut í kjölfarið mikilla vinsælda hér heima fyrir um sumarið og landaði aukinheldur einhverjum útgáfusamningum erlendis.