Þetta er bara kraftaverk (1985)

Þetta er bara kraftaverk

Þetta er bara kraftaverk

Syntapoppsveitin Þetta er bara kraftaverk átti rætur sínar að rekja til pönksins og var eðlilegt framhald af pönksveitinni Q4U sem tveir meðlimanna, Elínborg Halldórsdóttir (Ellý) og Árni Daníel Júlíusson höfðu verið í.

Þetta er bara kraftaverk var stofnuð vorið 1985 en starfaði einungis um nokkurra mánaða skeið fram á haust.

Auk þeirra Ellýjar og Árna Daníels voru Óskar Þórisson (sem einnig hafði verið í svipuðum tilraunum með Mogo homo) og Ingólfur Júlíusson en hann var yngri bróðir Árna Daníels, þá aðeins þrettán ára gamall. Þeir bræður spiluðu á hljóðgervla og trommuheila en Ellý og Óskar sungu.

Sveitin kom fyrst fram á Rykkrokk tónleikunum um haustið 1985 og náði á sínum stutta tíma að taka upp eitthvert efni en það kom reyndar ekki út á plötu fyrr en á safnplötu sem Q4U gaf út 1996 og hét Q2, lagið bar heitið Snjóhvít.