
Victor Urbancic
Victor Urbancic (fæddur Urbantschitssch) var Austurríkismaður (f. 1903) sem fluttist til Íslands á vegum Tónlistarfélags Reykjavíkur 1938 en hann flúði hingað til lands undan nasistum.
Victor hafði lagt stund á píanó- og orgelleik í Vín auk hljómfræði, og hafði m.a. stjórnað skólahljómsveit þar og komið fram bæði sem einleikari og leikið í hljómsveitum í Austurríki, hann hafði svo lokið doktorsnámi í tónvísindum árið 1925. Þá höfðu sönglög og kammerverk verið flutt eftir hann í Vín, Búdapest og víðar. Hann starfaði við hljómsveitarstjórn í Þýskalandi á árunum 1926 til 1933 og kom þá víða fram í Evrópu, en síðar starfaði hann bæði í Austurríki og Júgóslavíu áður en hann kom til Íslands.
Victor starfaði hér m.a. sem kennari við Tónlistarskólann í Reykjavík, hljómsveitarstjóri Hljómsveitar Reykjavíkur (undanfara Sinfóníuhljómsveitar Íslands) og sem kórstjóri og organisti Kristskirkju (Landakotskirkju). Hann stjórnaði um árabil hljómsveitum hjá Leikfélagi Reykjavíkur í Iðnó við flutning á leikritum og óperettum og stjórnaði flutningi á fyrstu óperunni hér á landi, Rigoletto í Þjóðleikhúsinu en hann var svo ráðinn hljómsveitarstjóri Þjóðleikhússins og kórstjóri Þjóðleikhúskórsins og stjórnaði m.a. flutningi á óperum eins og I Paliagi og Cavalleria Rusticana, Tosca, Töfraflautunni, La traviata o.fl. Þá samdi hann einnig tónlist við ýmist verk sem flutt voru í Þjóðleikhúsinu.

Victor Urbancic
Hér á landi kom Victor einnig að stjórnun á öðrum fjölmörgum stærri tónverkum, hann stjórnaði m.a. hljómsveitum, einsöngvurum og kórum í flutningi á verkum eins og Messias (Handel), Sálumessu Mozarts, Jóhannesarpassíu og Jólaóratoríu (J.S. Bach), Stabat Mater (Rossini) og áfram mætti telja, einnig verkum eftir íslensk tónskáld eins og Friði á jörð e. Björgvin Guðmundsson. Þá gegndi Victor einnig ýmsum félagsstörfum, hann var t.a.m. einn af stofnendum Félags íslenskra orgelleikara og formaður söngmálaráðs Landssambands blandaðra kór. Hann hlaut riddarakross fyrir framlag sitt til tónlistarinnar.
Victor samdi fjölmörg tónverk hér á landi, og hér má nefna Konsert fyrir þrjá saxófóna og strengjasveit, Messu Krists konungs fyrir þriggja radda kór (gefin fyrst út árið 2000) og gamanforleik sem hann tileinkaði Sinfóníuhljómsveit Íslands en þeirri sveit stjórnaði hann margoft. Fjölmörg verk hans hafa komið út á plötum og jafnframt er píanóleik hans og hljómsveita- og kórstjórn að heyra á nokkrum plötum.
Victor Urbancic lést 1958 en hann var þá á fimmtugasta og fimmta aldursári.














































