
Kósínus
Kósínus (Cosinus) var hljómsveit sem lék á böllum víðs vegar um Suðurland 1989 og 1990 en hún var skipuð ungu tónlistarfólki úr Árnes- og Rangárvallasýslum.
Hljómsveitin hafði verið starfandi um nokkurra mánaða skeið og með ýmsum mannabreytingum undir nafninu Færibandið, þegar hún hlaut nafnið Kósínus en það gerðist í kjölfar þess að söngkonan Jónína Kristjánsdóttir gekk til liðs við sveitina um haustið 1989 – aðrir meðlimir hennar voru þá Valur Arnarsson hljómborðsleikari (Súper María Á o.fl.), Heimir Tómasson gítarleikari (Bacchus o.fl.), Ólafur Unnarsson gítarleikari (Skrýtnir o.fl.), Gísli Reyr Stefánsson trommuleikari og Kristinn Jón Arnarson bassaleikari (Soma o.fl.).
Kósínus starfaði í stuttan tíma með þessa liðsskipan, Gísli Reyr trommuleikari hætti og sæti hans tók Jóhann Bachmann (Skítamórall o.fl.). Fleiri breytingar urðu í kjölfarið á skipan sveitarinnar, Bára Kristbjörg Gísladóttir söngkona bættist í hópinn og var í henni um tíma en einnig hafði Jón Ingi Gíslason þá leyst Jóhann eitthvað af á trommunum. Söngkonurnar tvær hættu fljótlega og Valur söng um skeið áður en Sigurður Einar Guðjónsson (Land og synir o.fl.) leysti hann af hólmi, um það leyti hafði Heimir sagt skilið við sveitina og flutt til Ástralíu. Kósínus var því skipuð þeim Val, Jóhanni, Ólafi, Kristni Jóni og Sigurði Einari, og starfaði þannig fram á vorið 1990 þegar hún lognaðist útaf en meðlimir hennar fóru þá í sína áttina hver.
Sveitin lék nokkuð á dansleikjum og öðrum tónlistartengdum uppákomum meðan hún starfaði, einkum á Selfossi og nágrenni en fór einnig t.a.m. austur að Skógum og lék á skólaballi þar. Hún skildi eftir sig eitthvað af frumsömdu efni sem hafði verið hljóðritað.
r.














































