Oblivion (1998)

Oblivion1

Oblivion

Hiphop-sveitin Oblivion kom frá Suðurnesjunum, líklega Keflavík og starfaði allavega 1998 – hugsanlega var hún byrjuð 1997.

Sveitin keppti í Músíktilraunum Tónabæjar vorið 1998 og voru meðlimir hennar þá Davíð Baldursson hljóðsmali, Arnar Freyr Jónsson rappari, Oddur Ingi Þórsson rappari, Elvar Þ. Sturluson rappari, Tómas Viktor Young trymbill og Haukur Ingi Hauksson skratsari.

Sveitin komst ekki í úrslit en hennar hefur einna helsta verið minnst fyrir eftirminnilega eða öllu heldur misheppnaða innkomu þegar þeir Oblivion-liðar mættu hettupeysuklæddir og merktir í bak og fyrir í hvítri limmósínu í Tónabæ – í sándtékkið. Aðeins örfá vitni í formi hljóð- og starfsmanna Tónabæjar urðu vitni að þessu stórkostlega atriði, þó nógu margir til að innkoma sveitarinnar verður lengi í minnum höfð.

Oblivion virðist ekki hafa starfað mjög lengi eftir Músíktilraunir Tónabæjar en eitthvað spilaði hún þó opinberlega fram á haustið 1998. Um það leyti kom út safnplata með lögum úr hljómsveitakeppninni Rokkstokk ´98 sem haldin var í Keflavík, þar átti sveitin eitt lag þrátt fyrir að hafa ekki tekið þátt í keppninni. Elvar er ekki tilgreindur sem einn af flytjendum efnis í þeim upptökum.