Randver (1974-79)

Randver1

Upphafleg útgáfa Randvers

Hljómsveitin Randver naut vinsælda á áttunda áratug síðustu aldar fyrir skemmtilega texta við lög úr ýmsum áttum. Sveitin var afkastamikil á þeim fimm árum sem hún starfaði og gaf á þeim tíma út þrjár plötur en hvarf að því búnu jafn snögglega og hún birtist upphaflega, í lok áratugarins.

Tilurð og langur líftími Randvers var í raun og veru tilviljun ein og kom til af því fimm kennarar úr Öldutúnsskóla í Hafnarfirði komu fram með tónlistarskemmtiatriði á árshátíð Kennarasambands Suðurnesja haustið 1974. Um var að ræða nokkur írsk þjóðlög við íslenska texta þeirra félaga, sem féllu svo rækilega í kramið að sveitin var þarna um kvöldið bókuð á aðra svipaða skemmtun í kjölfarið. Og sagan endurtók sig á þeirri skemmtun, til þeirra félaga kom aðili sem bókaði sveitina þriðja kvöldið. Þar með var hljómsveitin sem upphaflega var skemmtiatriði nokkurra samkennara í Hafnarfirði nú orðið að starfandi hljómsveit vegna utanaðkomandi pressu.

Tónlist þeirra Randvers-liða var síður en svo ný af nálinni hér á landi, þjóðlagatónlist hafði verið vinsæl hér nokkrum árum fyrr þegar slík vakning gekk yfir landið, með tónlist Savanna tríósins, Þriggja á palli o.fl. en Randver var fyrst íslenkra sveita til að nota hljóðfæri eins og mandólín og banjó að einhverju marki.

Meðlimir sveitarinnar voru frá upphafi Ellert Borgar Þorvaldsson, Guðmundur Sveinsson, Ragnar Gíslason, Sigurður R. Símonarson og Jón Jónasson, Ellert og Guðmundur sáu að mestu um forsönginn en hinir léku á gítara, mandólín og önnur tilfallandi hljóðfæri.

Framan af áttu þeir félagar í erfiðleikum með að finna nafn á sveitina og skiptu um heiti í hvert sinn er þeir komu fram, þannig voru þeir einkum undir áhrifum frá breska barnabókahöfundinum Enid Blyton og kallaðist sveitin nöfnum eins og Fimm á flótta, Fimm í strandþjófaleit, Fimm í olíuþjófaleit og Fimm í veiðiþjófaleit, allt eftir tilefninu, en einnig 200.000 naglbítar sem var sótt í smiðju Halldórs Laxness og Atómstöðvarinnar. Það nafn festist ekki við sveitina en synir Jóns áttu síðar eftir að nota það í sinni sveit löngu síðar. Það var því ekki fyrr en vorið 1975, eftir að sveitin hafði komið nokkrum sinn opinberlega fram, að hún hlaut endanlegt nafn, Randver.

Randver

Randver

Um þetta leyti voru þeir félagar reyndar nánast komnir að því að hætta störfum en ákváðu að taka upp nokkur laganna, aðallega fyrir sig sjálfa en þegar upptökurnar komust í hendurnar á Gunnari Þórðarsyni sem þá rak hljómplötuútgáfuna Hljóma ásamt Rúnari Júlíussyni, bauð hann þeim að gefa út plötu með þeim. Lögin voru því tekin upp aftur í Hljóðrita sem þá var nýtekinn til starfa, og gefin út um sumarið 1975.

Platan, sem bar nafn sveitarinnar, innihélt að mestu írska þjóðlagatónlist með textum þeirra félaga sem þóttu smellnir, einkum framlag Ellerts Borgars en lagið Skákóða konan naut nokkurra vinsælda. Platan hlaut þokkalegar viðtökur gagnrýnenda dagblaðanna, sæmilega dóma í Morgunblaðinu og Þjóðviljanum og ágæta í Tímanum og Vísi, hún þótti þó nokkuð hrá og hroðvirknislega unnin sem rekja mátti til hversu nýlega hljóðverið hafði tekið til starfa.

Randver hélt áfram sínu striki og lék jafnt sem á skemmtistöðum, árshátíðum og útihátíðum, fljótlega eftir útgáfu fyrstu plötunnar sagði Sigurður Símonarson skilið við sveitina og tók Ólafur Torfason sæti hans, Ólafur staldraði hins vegar stutt við og hætti áður en upptökur á næstu plötu hófust, og starfaði Randver sem kvartett eftir það.

Á þeirri plötu, sem Steinar Berg gaf út, lá áherslan á bandarísk lög en við sömu textaformúlu og áður, sem voru ætíð aðalsmerki sveitarinnar. Platan bar nafnið Aftur og nýbúnir og varð fyrsta platan sem gefin var út á Íslandi árið 1977.

Þetta varð sú plata Randvers sem hlaut bestu viðtökur hlustenda og varð ein söluhæsta plata ársins, enda urðu fjölmörg laga hennar vinsæl, lögin Katrín og Óliver, Einn hreinn sveinn, Upp í sveit og síðast en ekki síst lagið Bjössi, sem var hið sígilda Bjössi á mjólkurbílnum en búið að snara yfir á enska tungu.

Gagnrýnendur voru fremur jákvæðir í garð plötunnar, hún fékk mjög góða dóma í Morgunblaðinu, Tímanum og Dagblaðinu, en fremur slaka í Þjóðviljanum.

Og járnið var hamrað á meðan það var heitt, þriðja platan fór í vinnslu og með sömu uppskriftinni var keyrt á texta og erlend lög en þarna mátti einnig finna þrjú lög eftir Jón Jónasson meðlim Randvers, og reyndar eitt eftir Matthías Á. Mathiesen þáverandi fjármálaráðherra. Platan fekk nafnið Það stendur mikið til, og var gefin út af Steinum eins og sú á undan. Færri dómar birtust um hana í fjölmiðlum en hún fékk þó ágæta dóma í Tímanum. Þar var meðal annarra að finna lagið Idi Amin sem var vinsælt.

Randver3

Randver í hljóðveri

Svo virðist sem smám saman hafi fjarað undan sveitinni upp frá þessu, hún starfaði þó í ríflega ár eftir útgáfu þessarar síðustu plötu en síðast heyrist af henni haustið 1979, um það leyti hætti hún líklega í bili.

Plöturnar þrjár voru þó ekki það eina sem kom út með Randveri, síðari plöturnar tvær komu út saman undir titlinum Aftur og nýbúnir & Það stendur mikið, en þær gætu allt eins hafa komið einungis út á snælduformi.

Einnig kom út safnplatan …aftur og loksins búnir?: vinsælustu lögin, árið 2003 á vegum Íslenskra tóna sem þá átti útgáfuréttinn á efninu. Sú plata hafði að geyma tuttugu og sex lög en fimm þeirra voru nýleg og tekin sérstaklega upp fyrir plötuna, utan lagsins Grafskrift sem komið hafði út á plötunni Foldaskóli 15 ára þremur árum fyrr, Randver hafði einmitt komið saman aftur 1993 og starfaði tímabundið. Þá var Sigurður Björgvinsson kominn í stað Guðmundar Sveinssonar Útgáfan hlaut ágætar viðtökur gagnrýnanda Morgunblaðsins.

Lög Randvers má einnig finna á hinum ýmsu safnplötum, þar má nefna 100 íslensk 70‘s lög á 5 geislaplötum (2009), Í sumarsveiflu (1992), Með lögum skal land byggja (1985), Stjörnuplata I: 20 stuðlög (1980), Sveitasöngvar: á léttu skeiði (1993), Á rás um landið (1993), Villtar heimildir (1979) og áðurnefnda  Foldaskóli 15 ára (2000).

Þótt nokkuð sé um liðið síðan Randver hætti heyrast lögin sveitarinnar einstöku sinnum svo ekki eru þeir alveg gleymdir. Hitt er að meðlimir Randvers gátu ekki aðeins af sér tónlist heldur einnig afkomendur sem orðið hafa áberandi í íslensku tónlistarlífi, þar má nefna þá bræður Vilhelm Anton og Kára Jónssyni sem gert hafa garðinn frægan í sveitum eins og 200.000 naglbítum (sem áður er getið) en þeir eru synir Jóns Jónassonar, Gunnar Bjarna Ragnarsson úr Jet Black Joe og fleiri sveitum en hann er sonur Ragnars Gíslasonar, og Margréti Sigurðardóttur söngkonu, Svein Guðmundsson (gaf út plötuna Fyrir herra Spock, MacGyver og mig, 2013) sem er sonur Guðmundar Sveinssonar, en hún er dóttir Sigurðar Björgvinssonar.

Efni á plötum