Rain [1] (1967-68)

Rain

Bítlasveitin Rain starfaði í Reykjavík í ríflega ár, síðari part sjöunda áratugarins áður en hún lagði upp laupana.

Rain var stofnuð í ágúst 1967 og var sveitin skipuð fjórum meðlimum en aðeins nafn eins þeirra er þekkt, það var Einar Vilberg Hjartarson gítarleikari, sem síðar átti eftir að vekja athygli fyrir lagasmíðar sínar og plötur.

Sveitin vakti nokkra athygli og spilaði töluvert opinberlega þar til um haustið 1968 þegar vinsældir hennar fóru dalandi, það varð til þess að þrír þeirra gáfust upp (þeir ónafngreindu) og Einar Vilberg stóð einn eftir. Hann gafst ekki upp og fékk til sín þrjá aðra liðsmenn í stað hinna, það voru Gunnar Jónsson söngvari, Grétar Kristinsson bassaleikari og Már Elíson trommuleikari. Þannig skipuð reyndu þeir félagar að blása lífi í glæðurnar en það virðist ekki hafa dugað til, og hætti sveitin fljótlega alveg störfum eftir það þarna um haustið.

Upplýsingar um hina þrjá meðlimi Rain sem hættu, væru vel þegnar.