Johnny Triumph (1985-)

Johnny Triumph

Johnny Triumph

Johnny Triumph er aukasjálf Sjóns en það er oftar en ekki tengt laginu Luftgítar sem hann flutti ásamt hljómsveitinni Sykurmolunum á sínum tíma.

Rithöfundurinn Sjón (Sigurjón Birgir Sigurðsson) kom upphaflega opinberlega með persónuna Johnny Triumph sumarið 1985 en það var þó ekki fyrr en ári síðar sem hljómsveitin Sykurmolarnir var stofnuð.

Haustið 1987 kom síðan út skáldsagan Stálnótt eftir Sjón og í þeirri bók birtist persónan Johnny Triumph sem höfundurinn sagði í blaðaviðtali vera eins konar fjarskyldur ættingi Bobs Moran og Mad Max. Þar vísaði hann með nostalgískum hætti til þess sem hann kallaði deyjandi part af drengjamenningu sinnar kynslóðar.

Um líkt leyti fór Sjón í hlutverki Johnny Triumph að troða upp með Sykurmolunum og varð lagið Luftgítar fljótlega órjúfanlegur hluti af samstarfi hans og sveitarinnar, sú uppákoma sló í gegn og fljótlega kom upp sú hugmynd að gefa lagið út á plötu með Sykurmolunum og Johnny Triumph.

Sá gjörningur, að spila á luftgítar (þykjast spila á gítar) var einmitt skírskotun í sömu drengjamenningu sem áður er minnst á, og þegar platan (tveggja laga plata) kom út í lok ársins 1987 var við hæfi að b-hliðar lagið bæri titilinn Stálnótt (sbr. titill skáldsögunnar), en þar las Sjón samnefnt ljóð við undirleik Sykurmolanna.

Johnny Triumph hélt áfram að birtast á sviði með Sykurmolunum og þegar landvinningar sveitarinnar hófust undir nafninu Sugarcubes þótt við hæfi að gefa lagið einnig út á erlendum markaði. Á tónleikum erlendis voru tónleikagestir ekki alltaf alveg með á nótunum þegar hástemmdar kynningar Sykurmolanna á hinum heimsfræga Johnny Triumph ómuðu um tónleikasalina, en Sjón fór með sveitinni í frægan Bandaríkjatúr 1988.

Luftgítar naut nokkurra vinsælda hér heima, smáskífan fékk ágæta dóma í Alþýðublaðinu og Þjóðviljanum en Johnny Triumph var af því loknu lagður í bili á hilluna, hann kom þó lítillega við sögu hljómsveitarinnar Sogbletta þegar hann söng raddir á sex laga plötu þeirra, Fyrsti kossinn.

Þótt minna færi fyrir Johnny Triumph næstu árin var hann ekki dauður úr öllum æðum, hann kom til að mynda fram sem gestasöngvari með aukasjálfahljómsveitinni Jazzhljómsveit Konráðs Bé, sem e.t.v. er þekktust fyrir að koma sjálfum Bogomil Font fyrst á kortið.

Johnny Triumph hefur síðan birst með reglulegum hætti á sviði og þá iðulega til að syngja einkennislag sitt, Luftgítar, t.d. 1997 og 2006 (á kombakk-tónleikum Sykurmolanna).

Efni á plötum