Jóhann Ó. Haraldsson (1902-66)

Jóhann Ólafur Haraldsson1

Jóhann Ó. Haraldsson tónskáld

Tónskáldið Jóhann Ó. Haraldsson lifði og starfaði alla ævi sína við Eyjafjörðinn. Þótt hann sé e.t.v. ekki meðal þekktustu tónskálda íslenskrar tónlistarsögu liggja eftir hann fjölmörg verk af ýmsum toga.

Jóhann Ólafur Haraldsson fæddist á Dagverðareyri við Eyjafjörð árið 1902 og snemma varð ljóst að hann var með afbrigðum músíkalskur og hafði óvenju gott tóneyra. Hann var farinn að leika á orgel eftir eyranu um sjö ára aldur og radd- og útsetti þá fljótlega eftir eigin höfði.

Jóhann lærði ennfremur heilmikið í tónfræði og nótnalestri af föður sínum, Haraldi Pálssyni sem var organisti við þrjár kirkjur í sveitinni, en aðra tónlistarmenntun hlaut hann ekki utan örlítillar tilsagnar í sönglistinni síðar.

Jóhann þótti hafa fagra tenórsöngrödd og þegar hann flutti inn til Akureyrar gekk hann til liðs við Karlakórinn Geysi á Akureyri, þá fyrst naut hann eilítillar tilsagnar hjá Benedikt Elfar en síðar fékk hann örlitla söngkennslu hjá Sigurði Birkis. Jóhann söng stundum einsöng með kórnum og var einnig síðar í Þjóðkórnum svonefnda.

Söngferill Jóhanns þróaðist þó öðruvísi en til var ætlast þegar hann veiktist af berklum við byrjun fjórða áratugarins, þá missti hann fyrri eiginkonu sína úr þeim sömu veikindum en hann sjálfur var lengi að ná sér af þeim og missti annað lungað sem hafði óneitanlega mikil áhrif á söng hans, Jóhann hætti þó aldrei að syngja í kórum en einsöng mun hann hafa lagt á hilluna.

Jóhann átti ennfremur eftir að sinna kórstjórn í einhverjum mæli sem og orgelleik en hann varð organisti í að minnsta kosti tveimur kirkjusóknum við Eyjafjörð. Hann var einnig undirleikari kóra og einsöngvara við ýmis tækifæri auk annarra tónlistartengdra uppákoma.

Jóhann hafði sinnt hefðbundnum sveitastörfum samhliða tónlistarstörfum sínum framan af en þegar hann fluttist til Akureyrar starfaði hann lengstum við verslunarstörf og síðan endurskoðun, og gat þar með sinnt tónlistargyðjunni betur. Hann var þó fyrst og fremst tónskáld og hafði samið tónlist löngu áður en hann fluttist til Akureyrar en elsta varðveitta lag hans er frá 1918, annars hafa varðveist á annað hundrað laga og annarra tónverka eftir hann og eru þau af öllum stærðum og gerðum. Þar er þó mest að finna sönglög, bæði fyrir einsöngvara og kóra (karlakóra og blandaða kóra), sálmalög, orgel- og píanóverk og verk fyrir önnur hljóðfæri einnig, sem sýnir fjölhæfni hans sem tónskálds. Jóhann útsetti ennfremur verk annarra, bæði íslensk og erlend lög.

Mörg verka Jóhanns hafa komið út á nótum og birst í nótna- og söngvaheftum, þar má t.d. nefna heftin Ljóð og lög sem Þórður Kristleifsson hafði veg og vanda af, söngvasafn L.B.K.  (1948) og í Kirkjusöngbók frá 1946 sem m.a. hefur að geyma sjö sálmalög hans. Þótt mörg laga hans séu útgefin á nótum er þó stærstur hluti þeirra óútgefinn. Meðal sönglaga hans má nefna Hver er alltof uppgefinn?, Dansvísa, Íslands hrafnistumenn, Svanasöngur á heiði, Sumar í sveitum o.m.fl., fæst þessara laga hafa komið út á plötum. Sönglög hans voru oftar en ekki samin við ljóð þekktra ljóðskálda.

Jóhann náði sér aldrei almennilega af berklaveikindunum og lést hann snemma árs 1966 á sextugasta og fimmta aldursári sínu. Hans var minnst með tónleikum á Akureyri 2002 á aldarafmælinu en það var þó ekki í fyrsta sinn sem tónleikar voru haldnir eingöngu með tónverkum hans en slíkir tónleikar voru haldnir norðan heiða á sjöunda áratugnum.