Pónik [2] (1961-)

Pónik 2 1962

Pónik 1962

Saga hljómsveitarinnar Pónik (hinnar síðari) er með lengri hljómsveitasögum hérlendis og þótt sveitin hafi nú ekki komið fram í nokkur ár er ekki enn hægt að gefa út dánarvottorð á hana, tilurð hennar spannar um hálfa öld.

Ýmsar heimildir hafa komið fram um hvenær Pónik var stofnuð og nokkrar þeirra gefa upp ártalið 1964, það mun þó ekki vera alveg rétt heldur má færa það ártal fram um tvö og hálft ár. Sveitin var því raunverulega stofnuð haustið 1961 sem eins konar skólahljómsveit og eins og títt var um sveitir þess tíma var hún ýmis nefnd Pónik-kvintett eða -kvartett eftir stærð hennar hverju sinni.

Stofnmeðlimir Pónik voru hljómsveitarstjórinn og gítarleikarinn Sturla Már Jónsson, Guðmundur Ragnarsson trommuleikari, Halldór Pálsson tenór saxófónleikari og Úlfar Sigmarsson píanóleikari en sá síðastnefndi var rauði þráðurinn í gegnum sögu sveitarinnar, eini meðlimir hennar sem var í henni allan tímann. Guðmann Kristbergsson bassaleikari bættist fljótlega í hópinn.

Þegar Garðar Guðmundsson söngvari bættist við sumarið 1962 gekk sveitin eðlilega undir nafninu Pónik og Garðar, einnig söng Eskfirðingurinn Ellert Borgar Þorvaldsson með Pónik um tíma á þessum frumárum sveitarinnar og var hún því orðin sextett í byrjun árs 1963 en það var einungis tímabundið. Einar Hólm Ólafsson tók fljótlega sæti Guðmundar trommuleikara í sveitinni.

Þannig skipuð starfaði Pónik fram á vor 1963 en fór þá í sumarfrí, um haustið var sveitin hins vegar endurvakin og þá höfðu orðið mannabreytingar í henni en slíkar breytingar áttu eftir að einkenna sögu hennar. Hins vegar var algengt að sömu meðlimir fóru og komu aftur í Pónik, jafnvel nokkrum sinnum.

Pónik [2] og Garðar

Pónik og Garðar

En haustið 1963 voru í sveitinni Þór Nielsen söngvari og gítarleikari, Pétur Östlund trommuleikari, Gunnar Bernburg básúnu- og trompetleikari, Halldór, Guðmann og Úlfar, og litlu síðar bættist söngkonan Oddrún [?] í hópinn og söng með sveitinni um veturinn.

Næsta útgáfa sveitarinnar er venjulega sú sem heimildir segja marka upphaf hennar en sú útgáfa kom fram haustið 1964 eftir nokkurra mánaða pásu og var í raun endurstofnuð sveit. Meðlimir Pónik auk Úlfars og Halldórs voru þarna Sævar Hjálmarsson bassaleikari, Magnús Eiríksson gítarleikari og Benedikt Pálsson trommuleikari. Fljótlega bættist í hópinn söngvarinn Einar Júlíusson úr Keflavík en hann hafði verið fyrsti söngvari Hljóma sem voru á þessum vikum einmitt að slá í gegn.

Pónik og Einar vöktu fljótlega athygli og nutu sjálfsagt einhverrar athygli einmitt fyrir þá staðreynd að Einar hafði verið söngvari Hljóma, sveitin lék þó jafnt bítlatónlist og gömlu dansana og höfðaði því einnig til eldri kynslóða. Einar hreppti efsta sætið sem vinsælasti söngvari ársins 1965 í vinsældakosningu tímaritsins Fálkans, og Pónik varð í öðru sæti yfir vinsælustu hljómsveitina í sömu kosningu – á eftir Hljómum.

Benedikt trommari staldraði ekki lengi við í Pónik og Erlendur Svavarsson tók sæti hans og starfaði með sveitinni til sumarsins 1966 þegar Björn Björnsson tók við af honum. Erlendur átti þó eftir að koma aftur til liðs við þá síðar.

Pónik 1966

Pónik 1966

Haustið 1966 fór Pónik til Lundúna og tók þar upp átta lög sem áttu að fara á tvær smáskífur, útgefnar af U.F. hljómplötum en Jón Lýðsson var í forsvari fyrir þá plötuútgáfu.

Fyrri platan kom út snemma árs 1967 og hafði að geyma tvö lög og texta eftir Magnús Eiríksson gítarleikara en þetta voru fyrstu tvö lögin sem komu út eftir þann mikilsverða laga- og textahöfund. Hin lögin tvö voru erlend. Platan hlaut þokkalega dóma í Tímanum en það bar óneitanlega nokkurn skugga á útgáfuna að Ríkisútvarpið bannaði annað laganna eftir Magnús, Jón á líkbörunum, undir þeim forsendum að margar ekkjur á Íslandi hefðu átt mann sem hét Jón. Líklega var þetta þó hin besta auglýsing fyrir plötuna.

Síðsumar 1967 hætti Magnús í Pónik og er lífseig sú saga að hann hafi verið rekinn eftir að hafa spilað Jimi Hendrix sóló á einhverju ballinu, hvort sem það er tilfellið eða einhver önnur ástæða skiptir varla máli. Kristinn Sigmarsson bróðir Úlfars tók við gítarleikarahlutverkinu. Í kjölfarið urðu heilmiklar róteringar í kringum gítastöðuna, Kristinn staldraði stutt við og Finnur Torfi Stefánsson fyllti hans skarð, Finnur Torfi var hins vegar rekinn eftir fremur stutta viðveru í Pónik og tók Kristinn aftur við af honum um haustið 1968.

Vorið 1968 höfðu hins vegar borist þær fréttir að Pálmi Stefánsson í Tónaútgáfunni á Akureyri hefði keypt upptökurnar af seinni lögunum fjórum sem tekin höfðu verið upp í London en Jón Lýðsson hafði þá farið á hausinn með U.F. útgáfuna sína. Platan kom út í apríl og hafði að geyma þrjú lög eftir Magnús Eiríksson en um átta mánuðir voru þá liðnir hann hafði yfirgefið bandið. Fjórða lag plötunnar, Léttur í lundu (eftir Karl Hermannsson) naut nokkurra vinsælda og heyrist enn spilað með reglulegum hætti í útvarpi. Bítlavinafélagið endurgerði það lag 1989 og gaf út á plötu.

Pónik og Einar 1968

Pónik og Einar 1968

Platan fékk ágætar viðtökur og seldist í um fimmtán hundruð eintökum en hún fékk einnig ágæta dóma í Vikunni og Tímanum.

Mannaskipan Pónik hélst nú óbreytt næstu mánuðina en næsta breyting varð þegar Sigurður Karlsson trommuleikari tók við kjuðunum af Birni vorið 1969. Um það leyti spurðist út að sveitin myndi eiga lag á safnplötu sem væri fyrirhugað að gefa út en það var fyrsta plata sinnar tegundar á Íslandi sem hafði að geyma popptónlist. Platan, Pop festival ´70, kom síðan út ári síðar en hlaut slaka dóma. Reyndar stóð þarna til að sveitin gæfi einnig út tveggja laga plötu, og átti annað lag þeirrar plötu að vera úr söngleiknum Hárinu, af því varð þó aldrei.

Sigurður trommuleikari var ekki lengi í Pónik og gekk til liðs við Ævintýri vorið 1970, sem þá var ein af vinsælustu sveitum landsins. Erlendur kom þá aftur inn í sveitina en auk þess að vera trommari var hann einnig liðtækur söngvari, flestir meðlimir sveitarinnar sungu reyndar.

Það sama ár 1970 bættist Pónik liðsauki þegar Kristinn Svavarsson saxófónleikari og bróðir Erlendar trommara bættist við hópinn, þar með voru í sveitinni tvö bræðrapör, Kristinn og Erlendur Svavarssynir, og Úlfar og Kristinn Sigmarssynir, Sævar bassaleikari og Einar söngvari voru fimmtu og sjöttu menn.

Um haustið 1970 lék sveitin í sjónvarpsupptöku sem vakti nokkra athygli en þetta var á upphafsárum sjónvarps á Íslandi og slíkur viðburður því mun stærri en á okkar tímum.

Pónik var gjarnan kynnt sem elsta unglingahljómsveit landsins en hún hafði þarna starfað um átta ára skeið. Sveitin spilaði á árunum í kringum 1970 mikið á Vellinum fyrir bandaríska hermenn og því fór ekki mikið fyrir henni á höfuðborgarsvæðinu eða í fjölmiðlum.

Haustið 1971 þurfti Einar söngvari að hætta að læknisráði (líklega vegna bakveikinda) og Hjörtur Blöndal tók við söngvarahlutverkinu, reyndar hafði Pónik þá verið söngvaralaus í nokkrar vikur um sumarið en þeir félagar gátu flestallir sungið sem fyrr segir og því gátu þeir fyllt skarð Einars sjálfir tímabundið.

Nú þegar Einar var hættur hættu þeir félagar að kenna sig við söngvarann og kölluðu sig eftir þetta bara Pónik. Sveitin hafði reyndar í nokkur skipti auglýst sig í gríni undir nafninu DRON sem stóð fyrir Danshljómsveit Reykjavíkur og nágrennis, síðar átti önnur sveit eftir að starfa undir því sama nafni.

Pónik 1973

Pónik 1973

Pónik gekk á þessum tíma í gegnum nokkra niðursveiflu og virðist sem hún hafi ekki notið jafn mikilla vinsælda þegar Einar var farinn á brott. Sveitin fór í nokkurra mánaða pásu 1972 og 73 og var síðan endurvakin síðsumars 1973 en þá var nýr söngvari kominn til sögunnar, Siglfirðingurinn Þorvaldur Halldórsson en hann var þá landsþekktur fyrir framlag sitt með Hljómsveit Ingimars Eydal, og ekki hvað síst fyrir lagið Á sjó. Hann hafði þá reyndar ekki sungið í ein þrjú ár þegar hann gekk í Pónik. Þorvaldur tók einnig við bassanum af Sævari bassaleikara sem þarna var hættur í sveitinni.

Pónik fór í hljóðver um haustið og tók upp tvö lög, Lífsgleði og Hví þá ég? sem Erlendur og Þorvaldur sungu. Platan kom síðan út fyrir jólin 1973 en fékk fremur slaka útreið poppskríbenta fjölmiðlanna, mjög slaka í Alþýðublaðinu og slaka í Morgunblaðinu en kenna mátti lélegri plötupressu að hluta til um. Bæði lögin voru erlend með íslenskum textum.

Sem fyrr segir lék Þorvaldur á bassa en Hallberg Svavarsson, bróðir Kristins og Erlends, leysti hann stundum af á bassanum.

Vorið 1974 fóru þeir Pónik-liðar til Noregs og léku þar á Íslendingaballi en nýttu ferðina til að taka upp fjögur lög á tvær plötur í hljóðveri í Osló. Önnur platnanna kom fljótlega út og fékk þokkalega dóma í Morgunblaðinu en fremur slaka í Alþýðublaðinu, lögin voru erlend og varð annað þeirra, Bíllinn minn og ég, nokkuð vinsælt á sínum tíma.

Á miðju sumri 1974 bárust þær fregnir að Þorvaldur væri hættur í Pónik og fluttur til Vestmannaeyja og Einar Júlíusson hefði tekið sæti sitt á nýjan leik, til að byrja með söng hann þó fremur stopult með sveitinni vegna bakveikinda og sungu þá félagar hans fjórir eins og áður þegar þeir voru söngvaralausir. Kristinn Svavarsson færði sig yfir á bassann þegar Þorvaldur hætti en hann hafði aldrei spilað á slíkt hljóðfæri og þurfti því að hafa hraðar hendur við að læra á það.

Pónik 1974

Pónik 1974

Pónik var fastráðin sem húshljómsveit haustið 1974 í Sigtúni og átti eftir að vera þar næstu misserin, sveitin hafði einnig verið hússveit þar 1966. Við þau tímamót gekk Hallberg Svavarsson formlega í bandið og tók við bassanum af Kristni, sem gat þá aftur farið að spila á saxófóninn.

Tvö lög sem höfðu verið tekin upp með Pónik (og Þorvaldi) rötuðu nú inn á safnplötuna Hrif 2 sem ÁÁ-hljómplötur gaf út en framlag sveitarinnar fékk fremur slaka dóma. ÁÁ (Ámundi Ámundason) hafði einnig gefið út síðustu tvær plötur sveitarinnar sem og þá þriðju sem nú kom út og innihélt síðustu upptökurnar síðan Þorvaldur var í sveitinni, hann söng annað lagið á þeirri plötu en Erlendur trommari hitt. Platan hafði að geyma lögin Vor og Dóri kokkur.

Ólafur Garðarsson trommuleikari tók við kjuðunum af Erlendi veturinn 1974-75 og spilaði með Pónik rúmlega næsta árið þegar Sigurður Karlsson birtist aftur og gekk til liðs við sveitina en hann hafði þá tekið þátt í Change ævintýrinu í Bretlandi en gefist upp og komið heim til Íslands í upphafi árs 1976.

Þótt sveitin spilaði mikið í Sigtúni var hún þó ekki alveg eingöngu þar, hún fór einnig til Bandaríkjanna og spilaði á Íslendingaballi vestra en notaði þá tækifærið og vakti athygli á málstað Íslendinga í landhelgisdeilunni við Breta með því að skarta peysum með teikningu skopmyndateiknarans Sigmunds Jóhannssonar úr Vestmannaeyjum af Guðmundi Kjærnested skipherra en þorskastríðið var þá í fullum gangi.

Sigurður Karlsson var einungis fáeina mánuði í Pónik eins og í fyrra skiptið sem hann lék með sveitinni, hann hætti um vorið 1976 og tók Ari Jónsson við af honum. Einar söngvari fékk heilmikla athygli um þetta leyti þegar hann söng dúett með söngkonunni ungu, Ruth Reginalds, titillagið af plötunni Simmsalabimm sem naut mikilla vinsælda. Pónik kom þó ekki nálægt þeirri plötu að öðru leyti.

Pónik lék hins vegar á jólaplötu Kristínar Lilliendahl söngkonu en sú plata kom út fyrir jólin 1976, þar stjórnaði Kristinn Sigmars ennfremur upptökum.

Pónik 1976

Pónik 1976

Um sumarið 1976 kom söngkonan Steinunn Bjarnadóttir (Steinka Bjarna) til landsins en hún bjó þá í Bretlandi og hafði árið á undan vakið feikimikla athygli með lagið Strax í dag sem hún söng með Stuðmönnum á plötunni Sumar á Sýrlandi. Steinka kom fram í nokkur skipti með Pónik í Sigtúni þetta sumar. Og fleiri söngvarar komu við sögu Pónik á þessum árum, Ari trommari söng heilmikið með sveitinni og veturinn 1976-77 söng Ingibjörg Guðmundsdóttir (úr BG og Ingibjörgu) með henni, söngvararnir Þuríður Sigurðardóttir og Pálmi Gunnarsson komu einnig við sögu.

Sumarið 1977 hættu þeir Pónik-liðar sem hljómsveit hússins í Sigtúni og í kjölfarið lék sveitin meira á almennum markaði, skóla- og sveitaböllum svo dæmi séu tekin.

Sigurður Reynisson, ungur og efnilegur trommari tók við trommusettinu af Ara og sumarið 1979 var Sverrir Guðjónsson söngvari kominn í stað Einars Júlíussonar, Sverrir hafði verið barnastjarna en lítið farið fyrir honum síðustu árin þar til þarna að hann gekk til liðs við Pónik.

Mannaskipti voru sem fyrr segir mjög tíð allan tímann í Pónik og þeim var hvergi nærri lokið, Sigurður (Reynisson) trommuleikari hætti um vorið 1980 og Ari Jóns kom þá aftur inn, um það leyti hætti Kristinn Svavars einnig en hann var um þetta leyti að fara af stað með Mezzoforte sem stangaðist fremur illa á við Pónik. Heimildir herma að Jón Rafn Bjarnason hafi einnig verið um skamman tíma í sveitinni en staldrað stutt við.

Vorið 1980 var sveitin þá skipuð þeim bræðrum Kristni og Úlfari Sigmars, Hallberg, Ara og Sverri söngvara, og þannig skipuð gaf Pónik loksins út sína fyrstu breiðskífu. Það var tólf laga plata gefin út af Fálkanum þar sem fjölmargir gestir komu við sögu s.s. Graham Smith fiðluleikari og Manuela Wiesler flautuleikari en einnig hafði Kristinn saxófónleikari leikið inn á upptökurnar áður en hann hætti í sveitinni.

Platan sem hlaut titilinn Útvarp var reyndar svolítið á skjön við pönkið og nýbylgjuna sem þá skall af fullu afli á íslenskt tónlistarlíf sumarið 1980. Á hinn bóginn má líka segja að sú staðreynd hafi verið sveitinni til góða því ekki hlustuðu allir á pönk og nýbylgju en platan hafi þá fremur höfðað til fólks eldra en þrítugs.

Þeir félagar önnuðust sjálfir útsetningar en Gunnar Smári Helgason var upptökustjóri og naut aðstoðar Baldurs Más Arngrímssonar, upptökurnar fóru fram í Hljóðrita í Hafnarfirði. Útvarp fékk ágæta dóma í Morgunblaðinu, Tímanum og Vísi, auk sæmilegra dóma í Helgarpóstinum.

Pónik fylgdi plötunni eftir með ballspilamennsku en þarna má segja að byrjað hafi að fjara undan sveitinni og þar með hafi upphafið að lokum samfelldrar spilamennsku sveitarinnar farið að hefjast. Og mannaskipti voru tíð sem aldrei fyrr.

Þegar Félag íslenskra hljómlistarmanna (FÍH) hélt upp á fimmtíu ára starfsafmæli sitt með pomp og prakt 1982 var blásið til tónleikaveislu og herlegheitin tekin upp til útgáfu. Á þeirri (tvöföldu) plötu, FÍH 50 ára: 1932-1982, kom Pónik við sögu með eitt lag.

Sumarið 1982 var Sverrir söngvari búinn að fá nóg af balllíferninu enda ekki upphaflega úr því umhverfi, hann hætti því og mun Einar Júlíusson mestmegnis hafa sungið með þeim í kjölfarið. Þorleifur Gíslason saxófónleikari lék einnig með sveitinni um tíma sem og Kristinn Svavarsson aftur þegar hann gat. Sveitin lék auðvitað áfram á dansleikjum, mikið í Þórscafé en einnig á almennum böllum og einnig erlendis, t.d. á þorrablóti Íslendinga í Chicago í Bandaríkjunum 1983.

Pónik 1966

Pónik og Einar

Pónik hætti vorið 1986 en birtist aftur ári síðar og lék fáeina mánuði í Þórscafé, og þannig fjaraði smám saman undan henni. Sveitin spilaði stopulla eftir því sem á leið, hætti og byrjaði aftur á víxl og erfiðara er að henda reiður á hverjir léku með sveitinni í það og það skiptið. Þannig var sveitin stundum fullmönnuð, stundum einungis kvartett og meira að segja kom Pónik stundum fram sem tríó og kallaði sig þá Pónik tríó.

Guðrún Gunnarsdóttir söng með Pónik eitthvað á tíunda áratugnum, Þórir Úlfarsson hljómborðsleikari (sonur Úlfars) hefur einnig leikið stöku sinnum með sveitinni, sem og auðvitað þeir sem hafa komið og farið.

Síðustu heimildir um Pónik er að finna frá 2012 en hún hefur komið fram í þó nokkur skipti á þessari öld, því er ómögulegt að segja til um hvort sveitin sé lífs eða liðin. Hluti sveitarinnar hefur einnig leikið undir nafninu Baldursbræður á samkomum Oddfellow-stúkunnar Baldurs.

Lög með sveitinni hafa komið út á fjölda safnplatna í gegnum tíðina, þeirra á meðal má nefna Svona var 1967 / 1968 (2008), Úrval ´73 (1974), Aftur til fortíðar 60-70 II / 70-80 II (1990), Óskalögin 3 (1999), Rökkurtónar (1987), Strákarnir okkar (1998), Ástin er (1993), Bítlabærinn Keflavík (1998), 100 íslensk 70´s lög (2009) og 100 íslenskar ballöður (2008).

Efni á plötum