
Jolli & Kóla
Tvíeykið Jolli og Kóla var skammlíft verkefni tónlistarmanna sem höfðu verið áberandi í íslensku tónlistarlífi árin á undan.
Það voru þeir Valgeir Guðjónsson (Jolli) og Sigurður (Bjóla) sem skipuðu dúóið en þeir höfðu starfað saman í Stuðmönnum og Spilverki þjóðanna sem þá höfðu verið meðal vinsælustu hljómsveita landsins um árabil.
Samstarfið hófst í raun 1981 þegar þeir félagar byrjuðu að vinna með efni í ró og næði austur á Stokkseyri en upptökurnar fóru að mestu fram í Hljóðrita í Hafnarfirði 1983 og um það leyti hlaut verkefnið nafnið Jolli & Kóla. Í raun var einungis um að ræða hljóðversverkefni og þeim til aðstoðar voru einmitt þá- og fyrrverandi Stuðmenn auk nokkurra vel valinna nafna úr tónlistargeiranum. Einnig má á plötunni heyra söng Eggerts Þorleifssonar og Ágústs Guðmundssonar en sá fyrrnefndi hafði leikið í og sá síðarnefndi leikstýrt kvikmyndinni Með allt á hreinu sem Stuðmenn höfðu sent frá sér skömmu áður.
Verkaskiptingin Jolla & Kóla var með þeim hætti að Sigurður samdi megnið af lögunum en Valgeir alla textana og sáu menn ýmsan skyldleika við Stuðmenn/Spilverkið í tónlistinni.
Þegar Upp og niður: Stimulerende, forfriskende en svo hét platan, kom út fékk hún ágæta dóma í tímaritinu Samúel og í Poppbók Jens Kr., ennfremur ágæta í Morgunblaðinu, DV og Degi en sæmilega í Tímanum.
Um sama leyti og platan var unnin voru Stuðmenn einnig að taka upp plötu og svo fór að eitt laganna endaði á Stuðmannaplötunni en átti upphaflega að vera Jolla & Kóla plötunni, lagið Blindfullur sem naut mikilla vinsælda sumarið 1983. Upphafslag plötu Jolla & Kóla, Bíldudals grænar baunir hélt á hinn bóginn uppi vinsældum þeirrar plötu, sem og lagið Sæl og blessuð.
Ekki var framhald af þessu samstarfi þeirra tveggja þótt þeir Valgeir og Sigurður hafi síðar margoft starfað saman á öðrum tónlistarvettvangi.
Lög af plötunni komu út á fáeinum safnplötum, Rás 3 (1983), Tvær í takinu (1984), Óskalögin 5 (2005) og á þrefaldri ferilssafnplötu með Valgeiri Guðjónssyni, Spilaðu lag fyrir mig (2012).














































