
Stuðkompaníið
Stuðkompaníið var hljómsveit frá Akureyri og starfaði um ríflega tveggja og hálfs árs skeið (1986-88), hún kom fyrst fram vorið 1986 og starfaði fram á haust 1988 við nokkrar vinsældir en sveitin sigraði Músíktilraunir Tónabæjar vorið 1987.
Upphaflega mun bandið hafa borið nafnið Steðjabandið en meðlimir sveitarinnar voru tvennir bræður, Trausti Már trommuleikari og Jón Kjartan bassaleikari Ingólfssynir og Karl söngvari og Atli hljómborðsleikari Örvarssynir (Kristjánssonar harmonikkuleikara), auk Magna Friðriks Gunnarssonar gítarleikara.
Allir voru fimmmenningarnir ungir að árum og ekki komnir af menntaskólaaldri.
Vorið 1987 tók Stuðkompaníið þátt í Músíktilraunum Tónabæjar og Bylgjunnar með það að markmiði að sigra keppnina enda spilaði sveitin hið svokallaða “gleðipopp” sem þá var kallað, í anda Greifanna frá nágrannabyggðalaginu Húsavík en þeir höfðu sigrað árið áður. Markmiðið náðist í fyrstu tilraun og lenti bandið í fyrsta sæti og tók sumarið með trompi í kjölfarið.
Hluti sigurlaunanna voru hljóðverstímar og ekki leið langur tími áður en út kom fjögurra 12 tomma stuttskífa sem nefndist Skýjum ofar og naut lagið Tunglskinsdansinn mikilla vinsælda sumarið 1987. Plötuna tók Gunnar Smári Helgason upp í Hljóðrita en hún fékk mjög góða dóma í DV og þokkalega í Þjóðviljanum.
Samhliða útgáfu plötunnar var hún gefin út á snælduformi ásamt plötunni Sviðsmynd með Greifunum en sveitirnar tvær skiptu með sér hliðum snældunnar.
Við tók mikil keyrsla á sveitaböllum um allt land og næsta sumar (1988) kom út önnur 12 tomma sem innihélt lögin Framadrauma og Þegar allt er orðið hljótt í tveimur útgáfum sem þá var nýlunda á Íslandi, þessi sömu lög birtust á safnplötunni Bongóblíðu þetta sumar. Tólf tommu platan fékk reyndar mjög slæma dóma í Alþýðublaðinu.
Um jólin 1987 hafði sveitin reyndar einnig sent frá sér lagið Jólastund á samnefndri safnplötu en það lag hefur einnig komið út á safnplötunum Rokk og jól og Pottþétt jól. Jólastund hefur fyrir löngu síðan orðið ómissandi þáttur í jólahaldi Íslendinga.
Síðar sumarið 1988 hætti sveitin störfum enda búin að vera á fullri keyrslu síðan sigurinn vannst í Músíktilraunum. Stuðkompaníið kom aftur saman á tuttugu ára afmæli þess árið 2006. Í tilefni af því kom út safnplatan 2xtólf: Öll lögin á einni geislaplötu …meira að segja líka jólalagið!.














































