
Trinity
Hljómsveitin Trinity frá Selfossi starfaði á níunda áratug síðustu aldar en hún var skipuð ungum tónlistarmönnum. Sveitin var stofnuð haustið 1980 og þá voru meðlimir hennar líklega allt niður í tíu ára gamlir, þeir félagar áttu svo eftir að leika á skólaböllum um nokkurra ára skeið og starfaði sveitin að líkindum til ársins 1986.
Meðlimir Trinity voru lengst af þeir Svanur Karlsson trommuleikari, Óðinn Burkni Helgason bassaleikari og söngvari, Vignir Þór Stefánsson hljómborðsleikari og söngvari og Hörður Hákonarson gítarleikari en líklega höfðu þeir Svanur, Hörður og Vignir myndað sveitina í upphafi. Síðar átti Þórir Gunnarsson bassaleikari (Á móti sól o.fl.) eftir að starfa með hljómsveitinni en ekki liggja fyrir upplýsingar um fleiri meðlimi hennar.
Trinity var meðal þátttökusveita í Músíktilraunum árið 1985 en komst ekki í úrslit keppninnar.














































